Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43375
Bakgrunnur: Hreyfiseðill er viðurkennd aðferð sem felur í sér að skrifa upp á hreyfingu sem meðferð við sjúkdómum. Markmiðið með honum er að auka áhugahvöt einstaklinga á hreyfingu og fá þá til þess að samþætta líkamlega hreyfingu með daglegu lífi. Árangur hreyfiseðilsins hefur lítið verið rannsakaður á Íslandi.
Markmið: Í þessari lýsandi þversniðsrannsókn var verið að skoða hvort að einstaklingar sem fengið hafa hreyfiseðil haldi áfram að stunda reglulega hreyfingu til lengri tíma eftir að þeir hafa útskrifast úr hreyfiseðilsúrræðinu. Jafnframt var verið að skoða hvort þessir sömu einstaklingar upplifi hindranir fyrir ástundun reglulegrar hreyfingar eftir útskrift úr úrræðinu.
Aðferðir: Rafræn könnun sem innihélt 9 spurningar var send á 974 einstaklinga sem að áður höfðu fengið ávísað hreyfiseðilsúrræði og útskrifast fyrir allt að 18 mánuðum einhvern tímann á tímabilinu 1. Mars, 2020 - 31. Ágúst, 2021. Lýsandi tölfræði var notuð til skoða hversu lengi þátttakendur héldu áfram að stunda reglulega hreyfingu eftir útskrift, hvort þeir teldu að hreyfiseðill myndi gagnast á ný, hverjar væru helstu hindranir gegn hreyfingu og hversu mikla hvatningu þátttakendur fengu á meðan á hreyfiseðilsúrræðinu stóð. Kí- kvaðrat próf voru framkvæmd til að meta mun á milli hópa og T-próf var notað til að bera saman niðurstöður á meðaltali heildarstiga þátttakenda og þýðis úr virknispurningum.
Niðurstöður: Svarhlutfall rannsóknarinnar var 32,3%. Meirihluti þátttakenda (62%) stunda enn reglulega hreyfingu eftir útskrift úr hreyfiseðilsúrræðinu. Helstu hindranir fyrir reglulegri hreyfingu voru líkamleg vanlíðan (20,8%) og tímaskortur (20,4%). Áhugahvöt (41%) var helsta hindrunin þegar hindrunum var skipt í þrjá flokka. Niðurstöður virknispurninga sýndu að þátttakendur hreyfðu sig marktækt meira en þýðið gerði í upphafi hreyfiseðilsúrræðis (p<0,001). Einnig sýndu niðurstöður að þátttakendur hreyfðu sig marktækt meira en þýðið við útskrift en tengslin voru minni (p<0,01).
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að úrræðið virkar til að koma fólki af stað í reglulega hreyfingu og ætti því að vera mikilvægur hluti af þjónustu heilbrigðiskerfisins sem ef til vill mætti nýta betur. Helsta hindrunin fyrir reglulegri hreyfingu var áhugahvöt. Sú niðurstaða gæti bent til þess að þátttakendur séu að upplifa hvatningu á mismunandi máta og þurfi að fá annars konar form af hvatningu, eða þurfa meiri hvatningu á meðan hreyfiseðill er virkur til að geta haldið í áhugahvötina í gegnum úrræðið og eftir útskrift. Þess vegna er mikilvægt að leita leiða til að efla áhugahvöt enn frekar til að ýta undir áframhaldandi hreyfingu eftir útskrift.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Meistaraverkefni- skemmuskil.pdf | 483,86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| Skemman-- yfirlýsing.pdf | 59,22 kB | Lokaður | Yfirlýsing |