Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4340
Heilsuskóli Barnaspítalans er þróunarverkefni fyrir framtíðarlausn á meðferðarúrræði fyrir of feit börn á Íslandi. Í meðferðarúrræðum við offitu barna er hátt hlutfall brottfalls oft takmarkandi þáttur og var markmið þessarar rannsóknar að skoða matarvenjur og hreyfimynstur í upphafi rannsóknar á milli þeirra sem hættu og þeirra sem luku meðferðinni.
Þátttakendur voru 84 börn, á aldrinum 8-13 ára sem höfðu líkamsþyngdarstuðul (BMI) 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðaltal, ásamt öðru foreldri þeirra. Í upphafi 12 vikna fjölskyldumiðaðrar íhlutunar svöruðu börn og foreldrar spurningalistum til að meta mataræði og líkamlega virkni. Jafnframt voru gerðar holdafars-, þol- og styrktarmælingar.
Aldur, kyn og þyngd foreldra og barna hafði ekki áhrif á heldni í meðferðinni. Hins vegar var líklegra að börn foreldra sem skiluðu fleiri vinnustundum í viku lykju meðferðinni (p=0,047). Börnin sem hættu höfðu verra þol (p=0,030) en þau sem luku meðferð, en ekki var munur á líkamsstyrk milli hópanna. Líkamleg geta foreldra og holdafar höfðu ekki áhrif á meðferðarheldni barnanna. Foreldrar barna sem hættu meðferð borðuðu sjaldnar kjöt (p=0,049) og grænmeti (p=0,048) en foreldrar þeirra sem luku meðferð, oftar mjólkurvörur (p=0,013) og sælgæti (p=0,038). Foreldrar barna sem hættu nutu þess einnig síður að prófa nýjar fæðutegundir (23% á móti 43%, p=0,049). Börnin sem hættu meðferð borðuðu oftar sælgæti (p=0,026) og drukku oftar sykraða gosdrykki (p=0,033) en þau sem luku meðferð. Meðal þeirra barna sem æfðu íþróttir, sögðust þau sem hættu í meðferðinni æfa í færri klst. í viku, það er 67% takmörkuðu hreyfinguna við 1-2 klst. í viku á móti 38% hjá þeim sem luku meðferðinni (n=62, p=0,027). Jákvæð fylgni var í holdafari og þreki á milli foreldra og barna. Fylgnin hélst marktæk meðal foreldra og barna sem luku meðferð en einungis var marktæk fylgni milli þyngdar, styrks í kvið og ummáls mjaðma meðal þeirra sem hættu. Jákvæð fylgni var í fæðuvali á milli foreldra og barna. Meðal þeirra sem luku meðferð hélst fylgnin marktæk í flestum fæðuflokkum en meðal þeirra sem hættu voru marktæk tengsl á milli hversu oft foreldrar og börn borðuðu kjöt, brauð, kex, kökur, ávexti og grænmeti og hversu oft þau drukku nýmjólk.
Áþekkar venjur foreldra og barna höfðu því meira að segja fyrir heldni í meðferðinni en aldur, kyn, efnahagur og líkamleg geta. Óhollar fæðuvenjur og lítil hreyfing foreldra og barna ásamt lélegu þoli barnanna voru áhættuþættir fyrir brottfalli. Út frá niðurstöðunum má álykta að lífsstíll foreldranna hafi mikil áhrif á fæðumynstur og líkamlega virkni barnanna. Þær fjölskyldur sem lifa heilsusamlegri lífsstíl við upphaf meðferðar eru líklegri til að endast í fjölskyldumiðaðri meðferð heldur en þær fjölskyldur sem hafa ólíkari lífsstíl innbyrðis og hafa óhollari venjur. Til að sporna við brottfalli og auka heldni við meðferðina er því nauðsynlegt að leggja ríka áherslu á að ná til foreldranna ekki síður en barnanna, þar sem heilsutengd hegðun foreldra endurpeglast í hegðunarmynstri barnanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
AsdisBjorgIngvarsdottir_MS_fixed.pdf | 1.07 MB | Lokaður | Heildartexti |