Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43441
Ritgerð þessi fjallar um samkennslu árganga í fámennum skólum þar sem samkennsla kemur til vegna hagkvæmnisjónarmiða en ekki hugmyndafræði. Í því skyni var unnin rannsókn og var tilgangur hennar tvíþættur. Henni er ætlað að varpa ljósi á tækifæri og áskoranir sem felast í samkennslu árganga og þá að skoða viðhorf kennara til þessa kennslufyrirkomulags og hvort þeir telji sig hafa fengið undirbúning fyrir það í kennaranámi. Verkið byggir á fræðilegri samantekt um samkennslu árganga sem tilkomin er af nauðsyn og eigindlegri tilviksrannsókn sem framkvæmd var með viðtölum við fjóra kennara sem uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna aukið umburðarlyndi og tækifæri til félagsþroska nemenda við aldursblöndun. Þá ýtir kennslufyrirkomulagið undir einstaklingsmiðað nám og stuðlar að fjölbreyttum kennsluaðferðum. Áskoranir koma helst upp við skipulag og framkvæmd kennslu með svo fjölbreyttan hóp en aukinn undirbúningur og álag fylgja kennslufyrirkomulaginu. Kennarar eru frekar neikvæðir en jákvæðir gagnvart kennslufyrirkomulaginu. Áskoranir snúa einnig að nemendum þar sem yngri nemendur samkennsluhóps þarfnast og krefjast meiri athygli frá kennaranum og hætt er við að eldri nemendur fái minni aðstoð. Niðurstöður sýna að fræðslu um samkennslu árganga virðist vanta í kennaranám en það skapar mögulega ójafnræði fyrir nemendur fámennra skóla. Frekari rannsókna sem gefa skýra mynd af viðfangsefninu á landsvísu er þörf svo hægt sé að fullyrða að öll börn á Íslandi búi við jöfn tækifæri til náms.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
lokaverkefni lokaútgáfa.pdf | 387,28 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 166,46 kB | Lokaður | Viðauki |