Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43445
Með tilkomu nýrra kynslóða á vinnumarkaði fylgja ýmsar breytingar og nýjar kröfur til starfa svo sem til samskipta og stjórnunar. Þegar hér er rætt er um nýjar kynslóðir er átt við einstaklinga sem eru fæddir frá og með 1980. Rannsóknir sýna að væntingar nýrra kynslóða til stuðnings stjórnenda og jafnvægis milli vinnu og einkalífs eru ríkari en væntingar fyrri kynslóða og þá eru vísbendingar um að væntingar nýrra kynslóða á vinnumarkaði hafi áhrif á festu þeirra í starfi. Þekking um vellíðan og ánægju í starfi hjá yngri kynslóðum hefur aukist undanfarin ár og varpar ljósi á leiðir til að efla vellíðan nýrra kynslóða í starfi meðal annars með sveigjanleika í starfi, valdeflingu, góðum starfsanda og tækifærum til að þróast og vaxa í starfi. Rannsóknir sýna að stjórnendur gegna lykilhlutverki við að móta áherslur sem styðja við starfsánægju nýrra kynslóða meðal annars með áherslum þjónandi forystu.
Fáar rannsóknir eru fyrirliggjandi um upplifun nýrra kynslóða á vinnumarkaði hérlendis. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun starfsmanna sem tilheyra nýjum kynslóðum af starfi sínu og öðlast þannig skilning á þáttum sem hafa áhrif á líðan og væntingar nýrra kynslóða í starfi. Í rannsókninni er leitast við að svara rannsóknarspurinngunni: Hver er upplifun einstaklinga sem tilheyra nýjum kynslóðum af starfi með hliðsjón af ánægju í starfi og áherslum stjórnenda? Gerð varð eigindleg rannsókn með viðtölum við níu einstaklinga, á aldrinum 20 til 30 ára, og starfa á mismunandi sviðum atvinnulífsins.
Greining gagna leiddi í ljós fjögur þemu sem eru: Að vinnan eigi mann ekki bara, andrúmsloftið er gott þannig þér líður vel, líðan hafði áhrif á framtíð í starfi og ég horfi á hann sem vin minn. Helstu niðurstöður sýna að þátttakendur rannsóknarinnar leggja áherslu á að stjórnendur þeirra sýni mildi og ljúfmennsku í samskiptum, komi fram eins og vinur með uppbyggilegum samskiptum og veiti svigrúm til þess að gera mistök og veiti tækifæri til að þroskast og dafna í starfi. Niðurstöður rannsóknarinnar geta verið framlag til þekkingar á sviðinu og nýst starfsfólki og stjórnendum á vinnumarkaði.
Lykilorð: Nýjar kynslóðir, starfsánægja, vellíðan í starfi, samskipti, stjórnun og forysta.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
CameliaIulionudottir_MS_Lokaverk.pdf | 967,62 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |