is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Verkfræði- og náttúruvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Verkfræði- og náttúruvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4348

Titill: 
 • Grjótkrabbi (Cancer irroratus) við Ísland: uppruni og lirfuþroskun með samanburði við bogkrabba (Carcinus maenas) og trjónukrabba (Hyas araneus)
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Með auknum skipaferðum hefur flutningur sjávarlífvera á milli hafsvæða aukist mikið og
  er nú orðinn að miklu umhverfis- og efnahagslegu vandamáli á heimsvísu. Við Ísland hafa
  nokkrar nýjar tegundir sem taldar eru hafa borist hingað af mannavöldum fundist á
  síðastliðnum áratugum. Ein þeirra er norður-ameríski grjótkrabbinn (Cancer irroratus).
  Grjótkrabbi er tiltölulega stórvaxinn tífætla (Decapoda) sem getur orðið allt að 15 cm á
  skjaldarbreidd. Tegundin fannst fyrst hér við land í Hvalfirði árið 2006, en fyrir þann tíma
  var útbreiðsla hans aðeins þekkt við austurströnd N-Ameríku, frá Labrador til Suður-
  Karólínu. Ísland er því nyrsti þekkti fundarstaður krabbans til þessa. Talið er líklegast að
  tegundin hafi borist hingað til lands á lirfustigi í kjölfestuvatni skipa.
  Rannsóknirnar hófust árið 2007 en þá voru svifsýni tekin á þremur svæðum við landið, þ.e.
  í Hvalfirði og Faxaflóa, í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi og í Eyjafirði. Árið 2008 var sýnum
  frá Patreksfirði og Tálknafirði bætt við. Svifsýni voru tekin mánaðarlega með Bongóháfi á
  nokkrum stöðvum á hverju svæði, frá mars til nóvember. Samhliða greiningu á
  grjótkrabbalirfum í Hvalfirði og Faxaflóa voru bogkrabba- (Carcinus maenas) og
  trjónukrabbalirfur (Hyas spp.) greindar til lirfustiga. Árin 2007 og 2008 voru gildruveiðar
  einnig stundaðar á fullorðnum einstaklingum, á tímabilinu frá apríl til október, í Hvalfirði,
  Kollafirði, Skerjafirði og Faxaflóa.
  Fullorðnir grjótkrabbar reyndust algengir í Hvalfirði. Af þeim 1059 kröbbum sem alls
  veiddust voru aðeins 148 kvendýr (14%), en tíðni kvendýra var alltaf lág í afla. Kvendýr
  með egg veiddust á tímabilinu frá júní til ágúst. Lirfur grjótkrabbans hafa nú fundist í
  töluverðu magni í Hvalfirði og innanverðum Faxaflóa. Þéttleiki lirfa var lágur framan af
  sumri, náði hámarki í júlí en eftir það minnkaði hann er leið á haustið. Lirfur fundust
  einnig í svifsýnum frá Patreksfirði og því virðist krabbinn vera að breiðast út til Vestfjarða,
  þó enn sé á huldu hvort lirfum þar takist að þroskast í fullorðna einstaklinga.
  Sýnum frá Íslandi og þremur stöðum í N-Ameríku (Nýfundnalandi, Halifax og New
  Brunswick) var safnað til að athuga uppruna íslenska stofnsins og til að meta hvort hann
  hafi gengið í gegnum flöskuháls í landnáminu. Niðurstöðurnar sýna að um þónokkurn
  breytileika er að ræða í hvatbera-DNA meðal íslensku landnemanna, hann virðist þó vera
  minni (þó ómarktækt) en í N-Ameríku. Tíðni hvatberaarfgerða íslensku krabbanna er
  frábrugðin tíðni gerða í New Brunswick en ómarktækt frábrugðin stofnunum við bæði
  Halifax og Nýfundnaland. Vísbendingar eru um að íslenski stofninn hafi gengið í gegnum
  flöskuháls en stofnarnir í N-Ameríku virðast frekar vera í jafnvægi, eða gengið í gegnum
  flöskuháls fyrir þónokkru síðan. Hár breytileiki og vaxtarhraði íslenska stofnsins gefa til
  kynna að hann sé lífvænlegur og geti þrifist vel við Ísland.

Styrktaraðili: 
 • Verkefnasjóðir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, deild um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði
Samþykkt: 
 • 22.1.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/4348


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
OSG_MSc_2009_fixed.pdf1.96 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna