Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/43528
Þekkst hefur í mörg þúsund ár að ýmiss konar samningar hafi verið gerðir manna á milli. Samningar hafa svo þróast í takt við breytta viðskiptahætti eftir því sem samfélög verða flóknari. Það sem sameinar flesta samninga er meginreglan sem viðurkennd er í rétti flestra þjóða að samninga skuli halda. Viðskiptalífið byggir á þessari reglu og er hún kjarni samningaréttarins. Annað sem hefur tekið breytingum eru ógildingarástæðurnar. Þær hafa þróast mikið frá því sem áður var þegar almenna reglan var sú að samningar væru skuldbindandi samkvæmt orðanna hljóðan. Síðari þróun hefur hins vegar leitt til þess að nú eru margar undantekningar frá hinni framangreindu meginreglu um réttaráhrif samninga en sem dæmi má nefna að nú er aukin áhersla á heiðarleika og sanngirnissjónarmið í lögskiptum manna og er trúnaðarskyldan dæmi um slíkt. Trúnaðarskyldur í ráðningarsamböndum geta verið margvíslegar en í þessari ritgerð verður áhersla lögð á trúnaðarskylduna að samningssambandi loknu og þá aðallega þegar sett eru ákvæði í ráðningarsamningana sem meinar starfsmanni að nota menntun, reynslu og þekkingu gegn vinnuveitanda eftir að samningssambandi þeirra lýkur.
Almennt gildir meginreglan um samningsfrelsi í ráðningarsamningum og geta menn því samið um ýmsar skuldbindingar þar á meðal samkeppnisbönn. Það er ekkert sem segir að starfsmaður megi ekki hefja eigin atvinnurekstur eða ráða sig til samkeppnisaðila eftir að ráðningarsambandi lýkur nema sérstaklega hafi verið um það samið. Útfærslan getur verið mismunandi sem og þær skuldbindingar sem samið er um. Útfærslan á Íslandi er þó ekki jafn skýr og í dönskum rétti en þar hafa verið sett lög um samkeppnisbönn. Í íslenskum rétti hafa verið tekin upp ýmis ákvæði í kjarasamningum en í þeim er að finna viðmið sem líta ber til við matið á því hvort samkeppnisskuldbindingar í ráðningarsamningi teljist vera of víðtækar.
Í þessari ritgerð verður sjónum beint að túlkun samkeppnisákvæða í ráðningarsamningum. Skoðað verður hvernig samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum hafa verið túlkuð í framkvæmd og hvaða sjónarmið hafa verið lögð til grundvallar í því sambandi. Því næst verður horft til ógildingarreglunnar sem birtist í 37. gr. samningalaga og beitingu dómstóla á henni. Auk þess verður horft til dansks réttar og hann borinn saman við íslenskan rétt. Að lokum verða helstu niðurstöður dregnar saman.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BA - ritgerð.pdf | 267,94 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
Skemman yfirlýsing.pdf | 185,9 kB | Locked | Declaration of Access |