Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/43529
Á síðustu árum hefur það orðið algengara að sett séu svokölluð samkeppnisákvæði í ráðningarsamninga en efni slíkra samninga getur verið með ólíkum hætti. Til dæmis hafa slík ákvæði verið útfærð á þá leið að starfsmaður hefji ekki störf hjá samkeppnisaðila vinnuveitanda síns í ákveðinn tíma eftir starfslok eða að starfsmanni sé óheimilt að hefja eigin rekstur í samkeppni við fyrri vinnuveitanda. Þessum samkeppnisákvæðum eru settar skorður í 37. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 (hér eftir samningalög). Samningsaðilar hafa því ekki algjört samningsfrelsi þegar kemur að gerð ráðningarsamninga með samkeppnisskilmálum. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. hefur að geyma tvö skilyrði fyrir ógildingu þeirra samninga sem hafa að geyma samkeppnisákvæði. Í fyrsta lagi má skuldbindingin ekki skerða atvinnufrelsi starfsmanns með ósanngjörnum hætti. Í öðru lagi má skuldbindingin ekki vera víðtækari en nauðsynlegt er til að varna samkeppni.
Í þessari ritgerð verður leitast við að varpa ljósi á það hvernig samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum hafa verið túlkuð í dómaframkvæmd. Verður sérstaklega litið til þess hvernig slík ákvæði eru túlkuð með hliðsjón af skilyrðinu um að skuldbinding megi ekki vera víðtækari en nauðsynlegt sé til að varna samkeppni. Í kafla 2 er gerð grein fyrir túlkun samninga með almennum hætti og hvaða reglur samningaréttar gilda í þeim efnum. Í kafla 3 er vikið að efni ráðningarsamninga og grundvallarreglunni um trúnaðarskyldu samningsaðila. Í kafla 4 er vikið að skilyrðum 1. mgr. 37. gr. samningalaga og þeim sjónarmiðum sem hafa verið lögð til grundvallar við mat á því hvort samkeppnisákvæði sé í andstöðu við ákvæðið. Í kafla 5 verður leitast við að varpa ljósi á það hvernig samkeppnisákvæði hafa verið túlkuð í dómaframkvæmd með hliðsjón af skilyrðinu um að skuldbinding sé ekki víðtækari en nauðsynlegt er til að varna samkeppni. Er þar komið inn á nokkur grundvallarviðmið sem mótast hafa í dómaframkvæmd.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna. Skemman. Birta Steinunn.pdf | 585,88 kB | Locked | Declaration of Access | ||
BA.ritgerð.Birta Steinunn.pdf | 197,65 kB | Open | Complete Text | View/Open |