Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43558
Stuðningsrík náin sambönd eru talin vera grunnurinn að heilbrigðu lífi með auknum tilgangi og vellíðan. Tengslakenningin varpar ljósi á mikilvægi umönnunar á fyrstu árum mannsins og hvaða afleiðingar það að mynda með sér örugg eða óörugg tengsl í æsku getur haft. Tengslamyndun einstaklings gegnir stóru og áhrifamiklu hlutverki frá vöggu til grafar. Það er því mikilvægt að gera grein fyrir þeim afleiðingum sem tengslamyndun getur haft á þróun væntinga til annarra sambanda, þá sérstaklega rómantískra sambanda. Markmiðið með þessari ritgerð var að útskýra helstu þætti tengslakenningarinnar, hvernig tengslamyndun í æsku á sér stað og hvernig hún mótar væntingar einstaklings til annarra í nánum samböndum síðar á ævinni. Leitast var við að svara spurningunni: Hvernig getur tengslamyndun haft mótandi áhrif á væntingar einstaklings til rómantískra sambanda? Rannsóknir hafa leitt í ljós að tengslamyndun og væntingar einstaklinga til annarra geta haft áhrif á upphaf og viðhald rómantískra sambanda. Væntingar einstaklinga með örugga tengslamyndun geta stuðlað að ánægjulegum samböndum sem fela í sér almennt traust og skuldbindingu til maka á meðan væntingar einstaklinga með óörugga tengslamyndun geta haft alvarleg neikvæð áhrif á gæði sambanda. Tengslakenningin er mikilvæg til þess að skilja hvernig þessi tengslamyndun á sér stað í æsku, hvernig hún þróast og breytist á unglingsog fullorðinsárunum og hvernig hún getur haft áhrif á félagslíf einstaklings. Tengslakenningin getur nýst félagsráðgjöfum vel í starfi þeirra og veitt þeim víðtækan og samþættan ramma um náin tengsl og hvernig þau myndast í nánum samböndum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlysing_skemman.pdf | 47,93 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
avs7_Anna_BAritgerð.pdf | 438,15 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |