Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43579
Skaðabótareglum fjármunaréttar er gjarnan skipt í tvo flokka, þ.e. skaðabætur innan og utan samninga. Síðarnefndi flokkurinn heyrir undir svið skaðabótaréttar og er þá jafnan um þær aðstæður að ræða að ekkert undanfarandi réttarsamband er til staðar; til þess stofnast við hina skaðabótaskyldu háttsemi. Um skaðabótaábyrgð innan samninga, þ.e samningsábyrgð, er aftur á móti fjallað á sviði kröfuréttar enda þar um að ræða skaðabótarétt vegna vanefnda á samningi.
Skaðabætur er aðeins ein tegund þeirra vanefndaúrræða sem aðili gagnkvæms samnings getur gripið til vegna vanefnda viðsemjanda síns. Má sem dæmi nefna í þessu sambandi 1. mgr. 22. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup en í tilvitnuðu ákvæði er tiltekið að kröfuhafi geti krafist efnda in natura, riftunar og haldið eftir greiðslu, auk skaðabóta.
Þá er unnt að ákvarða skaðabætur innan samninga á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er hægt að gera samningsaðila sem líkast settan fjárhagslega eins og ef um engan samning hafi verið að ræða. Nefnast slíkar bætur í þeim tilvikum vangildisbætur. Hins vegar er hægt að ákvarða skaðabæturnar sem efndabætur og með því gera samningsaðila eins settan og ef samningur hefði réttilega verið efndur. Tilvik þau, þar sem efndabætur koma til skoðunar, eru fjölmörg. Má meðal annars nefna þær aðstæður þegar greiðsla er ekki afhent á réttum tíma, þ.e. greiðsludráttur, og þegar greiðsla er alls ekki afhent, þá að heild eða hluta, þ.e. greiðslubrestur.
Í ritgerð þessari verður einblínt á þau tilvik þar sem krafist er skaðabóta innan samninga vegna greiðsludráttar og greiðslubrests. Ætlunin er þannig að gefa heildstæða og glögga mynd af þeim réttarreglum sem gilda um skaðabætur í þessu tilliti og þeim sjónarmiðum sem liggja að baki úrlausnum dómstóla.
Með ofangreint að leiðarljósi er nauðsynlegt hefja umfjöllun um inntak meginreglunnar um stjórnunarábyrgð og sögulegt samhengi hennar, sem gert verður í öðrum kafla. Því næst verður vikið að skaðabótum vegna greiðsludráttar í þriðja kafla og vegna greiðslubrests í þeim fjórða. Að því búnu verða niðurstöður dregnar saman í lokakaflanum, þeim fimmta.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skaðabætur vegna greiðsludráttar og greiðslubrests.pdf | 222,4 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 20,14 kB | Lokaður | Yfirlýsing |