is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43652

Titill: 
  • Húsnæði fyrst: Hver er staða heimilislausra einstaklinga á Íslandi í dag?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Heimilislausir einstaklingar eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Ekki einungis vegna þess hversu erfitt það reynist andlega, líkamlega og félagslega að vera án heimilis heldur einnig vegna fordóma og jaðarsetningu sem viðgengst gegn þeim í samfélaginu. Þessi hópur hefur lengi verið falinn í samfélaginu og úrræði takmörkuð en á undanförnum árum hefur mikið vatn runnið til sjávar í málaflokki heimilislausra. Úrræðum hefur fjölgað en á sama tíma önnur verið lögð niður, enda engin lögbundin skylda sveitarfélaga að sinna þessum málaflokki. Heimilisleysi getur haft mikil og skaðleg áhrif á fólk en með skaðaminnkandi úrræðum er hægt að draga úr þeim skaða og bæta þar með lífsgæði þessa einstaklinga. Ritgerð þessi er lokaverkefni höfundar til BA prófs í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Markmið ritgerðarinnar er að kanna stöðu heimilislausra einstaklinga á Íslandi eins og staðan er í dag. Til þess verður skoðað hvaða áhrif það hefur á einstaklinga að kljást við heimilisleysi líkamlega, andlega og félagslega. Þá verður skoðað hvaða úrræði eru í boði fyrir þennan hóp á Íslandi í dag. Einnig verður farið inn á fordóma og jaðarsetningu í garð þessa hóps ásamt aðkomu félagsráðgjafa í málaflokki heimilislausra. Spurningum sem leitað verður svara við eru eftirfarandi: Hvert er umfang heimilisleysis á Íslandi eins og staðan er í dag? Hver eru áhrif heimilisleysis á einstaklinga? Hvaða úrræði eru í boði fyrir þennan hóp?
    Ritgerðin byggir á fjölbreyttum rituðum heimildum, lögum og reglugerðum, upplýsingaefnum frá stofnunum og samtökum ásamt opinberum gögnum um stefnu málaflokks heimilislausra. Vegna takmarkaðra upplýsinga, rannsókna og ritrýndra greina um málefni heimilislausra einstaklinga á Íslandi byggir ritgerðin einnig á viðtölum við einstaklinga sem kljást við heimilisleysi sem birst hafa á fréttamiðlum þar sem þeirra skoðanir koma fram. Einnig voru takmarkaðar upplýsingar að finna um verkefnið Beint inn af götunni, sem er lágþröskulda móttaka fyrir einstaklinga sem nota vímuefni í æð, og voru því upplýsingar fengnar af facebook síðu Landspítalans.
    Helstu niðurstöður leiddu í ljós að þörf er á sértækum aðgerðum í málaflokki heimilislausra í formi lagasetningar. Það þyrfti að afmarka hlutverk ríkis og sveitarfélaga og gefa viðeigandi stjórnvöldum færi á einstaklingsmiðuðu mati við ákvörðun um réttindi og skyldur heimilislausra. Með því væri hægt að dreifa ábyrgð á milli stjórnvalda og skylda þau að sinna þessum málaflokki. Við lagasetningu væri mikilvægt að hugmyndafræði notendasamráðs væri í hávegum haft enda heimilislausir best til þess fallnir að veita upplýsingar um eigin þarfir. Óbreytt ástand gæti orðið til þess að málaflokkurinn leggist enn þyngra á herðar Reykjavíkurborgar og velferðarsamtaka. Heimilisleysi getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. En með skaðaminnkandi úrræðum er hægt að auka velferð þessa hóps og draga úr fordómum sem viðgengst gegn jaðarsettum einstaklingum. Þá er mikilvægt að veita viðeigandi stuðning og þjónustu sem er sveigjanleg og aðgengileg fyrir þennan hóp á þeirra forsendum.

Samþykkt: 
  • 19.4.2023
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/43652


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
guðrún fanney.pdf39,68 kBLokaðurYfirlýsingPDF
BA ritgerð.pdf324,52 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna