Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/43702
Tilgangur og markmið: Að draga saman þekkingu og samþætta niðurstöður rannsókna á áhrifum starfsánægju á starfsfólk geðdeilda á sjúkrahúsum. Greina áhrifaþætti á starfsánægju og hvaða áhrif starfsánægja hefur á starfsfólk og gæði þjónustunnar sem er veitt.
Fræðilegur bakgrunnur: Starfsumhverfi geðdeilda ræðst meðal annars af þörfum sjúklinga, mönnun starfsfólks og hvort viðeigandi öryggisráðstafanir séu til staðar. Góð samskipti og traust ræðst af tengslum starfsmanna við hvert annað, sjúklinga og yfirmenn. Tengsl starfsmanna hafa áhrif á starfsánægju og geta styrkt fagmennsku þeirra og hæfni. Gæði þjónustu sjúkrahúsa byggja á að nýta gagnreynda þekkingu, einstaklingsmiðaða meðferð sem hægt er að leggja mat á með árangri þeirra. Aðferð: Valið rannsóknarsnið er kerfisbundin fræðileg samantekt (e. systematic literature review). Rannsóknarspurningin var sett fram samkvæmt PICOT-viðmiðum. Leit að rannsóknum tengdum starfsánægju var framkvæmd í fjórum gagnagrunnum, PsycInfo, PubMed, CHINAL og Web of Science í febrúar 2023. Inntökuskilyrðin voru að rannsóknir urðu að vera á ensku, vera birtar á árunum 2013-2023 og fjalla um starfsánægju starfsfólks á geðdeildum sjúkrahúsa. Skilyrði voru einnig að greinar yrðu að vera ritrýndar, áhrifastuðull tímarits ≥1 (e. impact factor), fá ≥7 stig á JBI gæðamatsmælitæki og aðgangur frá virtu greinasafni eða höfundi að grein. Greinar voru metnar á JBI gæðamatsmælitæki af höfundi og leiðbeinanda. Þær greinar sem ekki uppfylltu inntökuskilyrðin voru útilokaðar og greining sett upp út frá PRISMA-flæðiriti.
Niðurstöður: Samtals 11 rannsóknir uppfylltu inntökuskilyrðin. Niðurstöður gefa til kynna að styðja þurfi markvisst við starfsánægju starfsmanna geðdeilda til að auka vellíðan í starfi og gæði þjónustunnar.
Ályktun: Stuðningur við starfsfólk með mismunandi starfsreynslu getur aukið seiglu þess og starfsánægju. Lengri starfsaldur eykur sjálfstæði og hæfni starfsmanna sem eykur gæði þjónustunnar. Því er mikilvægt að halda fólki lengur í starfi og minnka starfsmannaveltu.
Hagnýting fyrir hjúkrun: Það eykur gæði geðþjónustu þegar hjúkrunardeildarstjórar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk geðdeilda vinnur markvisst með þá þætti sem hafa sýnt sig með rannsóknum að auki starfsánægju.
Lykilorð: Starfsánægja, starfsfólk geðdeilda, geðdeildar á sjúkrahúsum, gæði þjónustu.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni_Fanney Viktoría Kristjánsdóttir.pdf | 1.38 MB | Open | Complete Text | View/Open | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna sem varðveitt eru í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni Fanney Viktoría Kristjánsdóttir 1705882079.pdf | 245.25 kB | Locked | Declaration of Access |