Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43734
Árið 2014 voru samþykkt lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 sem felldu niður afhendingarskyldu skjalasafns Alþingis til Þjóðskjalasafns Íslands. Í meira en öld fór Alþingi á svig við lögbundna afhendingarskyldu en í frumvarpi til laga um opinber skjalasöfn segir að ákvæði um afhendingarskyldu brjóti í bága við hugmyndir um sjálfstæði löggjafarvaldsins gagnvart öðrum greinum ríkisvaldsins. Í umsögn skrifstofu Alþingis segir að sú sérstaða sem 10. gr. stjórnarskrárinnar veitir Alþingi sé í samræmi við þá tilhögun sem gildir á hinum Norðurlöndunum þar sem skjalasöfn þjóðþinganna falli ekki undir þjóðarskjalasöfn landanna. Ýmis andstæð rök gegn breytingunni komu fram í umsögnum félagasamtaka, ríkisstofnana og héraðsskjalasafna. Helst var mótmælt skorti á reglum um starfsemi skjalasafns Alþingis og opinberu yfirliti yfir safnkost þess sem og bágri stöðu borgara og fræðimanna gagnvart því. Árið 2016 dró Héraðsskjalasafn Kópavogs hliðstæðu á milli stöðu skjalasafns Alþingis gagnvart borgurum og stöðu Leyndarskjalasafns Danakonungs gagnvart þegnum sínum. Tilgangur ritgerðarinnar er að rannsaka stöðu skjalasafns Alþingis í ljósi laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og svara því hvort um sé að ræða endurreisn einhvers konar leyndarskjalasafns að gamalli fyrirmynd. Helstu heimildir sem notaðar eru í ritgerðinni um skjalasafn Alþingis eru áður óbirt efni sem fengið var úr skjalasafni Alþingis. Niðurstaða höfundar er að slíkur samanburður sé yfirdrifinn og ónákvæmur. Enga hliðstæðu er að finna í starfsemi Alþingis og ákvarðanatökuferlum konungsstjórna forðum. Þrátt fyrir það er staðan ekki góð þar sem skjalasafni Alþingis fylgir enginn lestrarsalur, engar opinberar reglur og ekkert opinbert yfirlit yfir safnkostinn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð.pdf | 291,03 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna sem varðveitt eru í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni.pdf | 204,27 kB | Lokaður | Yfirlýsing |