is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43778

Titill: 
  • Snjallvæðing raforkukerfisins og álitamál um persónuvernd og mannréttindi
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Ritgerð þessi fjallar um snjallvæðingu raforkukerfa og uppsetningu og notkun snjallmæla innan þeirra. Snjallmælar eru tæki sem gera aðilum raforkukerfisins, t.d. dreifiveitum, söluaðilum og neytendum, kleift að fylgjast með notkun raforku innan kerfanna og mögulegum bilunum, óvenjulegri notkun raforku og fleiri þátta innan þeirra.
    Tæknilegir eiginleikar mælanna gera það mögulegt að safna umtalsverðum upplýsingum um þá notkun raforku sem fer fram á þeim stað sem mælirinn er settur upp á. Fyrir liggur að mögulegt er að lesa úr gögnum mælanna ýmsar upplýsingar um hegðun manna, svo sem hvort þeir séu heima við, hvort kveikt sé á einstaka heimilistækjum, hvort börn séu á heimilinu og jafnvel hvaða trúarbrögð séu þar iðkuð.
    Snjallmælar hafa verið settir upp á heimilum innan aðildarríkja ESB um nokkurt skeið en árið 2019 var innleidd tilskipun ESB nr. 2019/944 sem gerir nokkuð ríkar kröfur til uppsetningar snjallmæla innan aðildarríkja sambandsins við tilteknar aðstæður. Þau gögn sem mælarnir safna hafa í sumum tilfellum verið talin vera persónuupplýsingar í skilningi persónuverndarreglugerðar ESB nr. 2016/679 og hafa álitamál um notkun og vinnslu upplýsinganna leitt til úrlausnar álitamála á sviði persónuverndarréttar.
    Uppsetning snjallmæla á Íslandi er hafin fyrir tilstilli íslenskra dreifiveitna en ólíkt réttarstöðu aðildarríkja ESB hvílir ekki rík skylda til uppsetningar slíkra mæla hér á landi, enda hafa ekki verið leidd í lög ákvæði sem kveða á um slíka skyldu eða söfnun þeirra upplýsinga sem snjallmælar safna. Nokkur óvissa er því um á hvaða grundvelli söfnun persónuupplýsinga mælanna fer fram og hversu víðtæk söfnun upplýsinga er heimil með þeim.
    Samhliða álitamálum á sviði persónuverndarréttar leiðir uppsetning snjallmæla til álitamála tengdum mannréttindaákvæðum á sviði friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Álitamál þessi eru óhjákvæmileg þegar horft er til eðlis þeirra upplýsinga sem mælarnir safna og þeirra upplýsinga sem tæknilega mögulegt er að lesa úr þeim.
    Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru þær að við uppsetningu snjallmæla hér á landi þarf að gæta sérstaklega að réttindum hins skráða, meðal annars með tilliti til fræðsluskyldu ábyrgðaraðila, varðveislu upplýsinga um raforkunotkun og þess hversu ítarlegum upplýsingum er safnað. Þá ríkir nokkur óvissa um heimildir ábyrgðaraðila til vinnslu persónuupplýsinga sem snjallmælar safna og hvaða vinnsla sé heimil á grundvelli hennar.

Samþykkt: 
  • 3.5.2023
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/43778


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Snjallmælar, mannréttindi og persónuvernd - MGB.pdf722,19 kBLokaður til...01.01.2030HeildartextiPDF
Skemman_yfirlysing - Meðferð lokaverkefnis.pdf46,15 kBLokaðurYfirlýsingPDF