Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4378
Markmið þessarar ritgerðar er að meta hvort aldraðir hafi rétt til að deyja með reisn, og hvað það merki að ,,deyja með reisn“ í því samhengi. Kanna þarf rök fyrir slíkum rétti og hvaða forsendur þurfa að vera til staðar til þess að hann sé virtur. Þetta er mikilvægt vegna aukinnar tæknivæðingar heilbrigðiskerfisins, slakrar stöðu aldraðra í samfélaginu, óljósrar notkunar virðingar við umönnun og rýrs lagalegs baklands réttinda þeirra. Markmið ritgerðarinnar er að skýra hugtakið virðingu, bæði þá virðingu sem felst í viðhorfi hvers og eins og er því á ábyrgð samfélags og heilbrigðisstétta en einnig reisn sem eiginleika (eða ástand)hvers manns. Sérstaða ritgerðarinnar felst ekki síst í því að tengja saman kröfurnar um virðingu byggða á göfgi mannsins og mannréttindi sem grundvöll að réttinum til reisnar við lok lífs. Heimildasamantekt og röksemdafærsla tengd henni, kemur því víða við. Kastljósinu er beint að mikilvægi mannlegra samskipta og virðingarinnar sem nauðsynlegs hluta þeirra. Þetta er sett í samhengi við helstu hugmyndir um virðingu og reisn í sögu heimspekinnar. Því næst er litið sérstaklega til vandkvæða sem skapast hafa við tengingu reisnar og dauða og stöðu virðingar fyrir hinum öldruðu í samfélaginu. Þá verður hugað að viðhorfi hinna öldruðu til virðingar og reisnar, sem felur í sér sterkar vísbendingar um ábyrgð umönnunaraðila í stofnanaumhverfinu og mikilvægi virðingar byggðri á manngöfgi í því samhengi. Réttindaumræðan felur í sér að dregin er fram tilgangur og mikilvægi lagalegs réttar og í því samhengi gert grein fyrir vandkvæðum hinnar íslensku löggjafar, sérstaklega hvað varðar nær algerann skort siðferðilegra réttinda. Í ljósi þess eru siðareglur heilbrigðisstétta á Íslandi skoðaðar. Ófullnægjandi lagalegur og faglegur grunnur kröfunnar um að heilbrigðisstéttir uppfylli rétt hins aldraða til að deyja með reisn valda því að litið er til mannréttinda sem hluta siðferðilegra réttinda. Með vísun til mannréttinda má gera kröfuna um mannhelgi virka og skýra þannig hvað það er sem reisn felur í sér og einnig hvernig á að standa vörð um hana. Þannig má renna stoðum undir skilyrðislausa skyldu heilbrigðisstétta til að nýta sammannlegar tilfinningar sínar á meðvitaðan hátt til þess að hinn aldraði viðhaldi reisn sinni allt til dauða. Forsendur réttar hins aldraða til að deyja með reisn eru því á ábyrgð heilbrigðisstarfsmannsins og felast í siðferðilegri viðurkenningu á aðstæðum hans og manngildi með manngöfgi að leiðarljósi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MeistararitgerdIII_fixed.pdf | 653,09 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |