is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43842

Titill: 
  • Stjórnmálaleg vinstri-hægri skautun viðhorfa til innflytjenda á Íslandi. Umbrot á 21. öldinni
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Á 21. öldinni hefur ein helsta lýðfræðilega breyting á íslensku samfélagi verið aukinn fjöldi innflytjenda. Frá aldamótunum 2000 hefur hlutfall þeirra af heildarlandsmönnum farið frá 2,6% í 13,9% í janúar 2021 skv. Hagstofu Íslands. Innflytjendamál hafa orðið sífellt meira áberandi í samfélagsumræðunni bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Orðræðan ber þess ummerki að hún sé stjórnmálalega skautuð þar sem flestir þeirra sem fara hörðum orðum um innflytjendur virðast koma frá hægri vængnum. Á alþjóðlegum vettvangi hefur stjórnmálaleg hægri-vinstri skautun innflytjendamála orðið áberandi t.d. á Norðurlöndunum þar sem hægri stjórnmálaflokkar, sérstaklega popúlískir hægri flokkar, hafa náð fylgi með því að hamra á þessi mál með neikvæðum hætti. Þeir hafa gjarnan málað innflytjendur sem ógn við samfélagið.
    Á Íslandi hefur þróunin verið svipuð. Frá og með stefnubreytingu Frjálslynda flokksins 2006 hafa innflytjendur reglulega verið gerðir tortryggilegir og haldið fram að áhrif þeirra á samfélagið sé neikvæð. Moskumálið og umræðan um hælisleitendur hafa verið nýleg dæmi um slíkt. Þar af leiðandi var ákveðið að framkvæma rannsókn með ógnarkenninguna (Intergroup threat theory) sem kenningarlegu forsendu ritgerðarinnar. Hún greinir bæði táknrænar og veraldlegar ógnir sem mismunandi hópar samfélagsins upplifa af hvor öðrum, einkum hvernig innhópar samfélagsins bregðast við úthópum.
    Notast er við megindlega aðferð þar sem tvö gagnasöfn, annað frá 2004 og hitt frá 2020, eru greind í sitt hvoru lagi og síðan borin saman. Línuleg og fjölhliða línuleg aðhvarfsgreiningu var beitt til að rannsaka hvort stjórnmála-, félags- og efnahagslegir þættir hefðu fylgni við upplifun á ógn gagnvart innflytjendum skv. kenningarlegum forsendum. Markmiðið er tvíþætt. Annars vegar að rannsaka hvort stjórnmálaleg vinstri-hægri skautun sé til staðar á Íslandi og hinsvegar hvort hún hafi aukist frá 2004 til 2020. Til að kanna hvort stjórnmálaleg vinstri-hægri skautun sé til staðar er notuð stjórnmálaflokkabreyta sem mælir hvaða flokk viðkomandi kaus í gagnasafninu annars vegar 2004 og hinsvegar 2020. Sú aðferð svarar ekki hvort stjórnmálaleg vinstri-hægri skautun hafi aukist á tímabilinu. Til að finna út svar við því eru gagnasöfnin tvö sett saman í eitt gagnasafn og notaðar tvær breytur, ár og vinstri-hægri skalinn sem samvirknibreyta. Ársbreytunni er beitt til að mæla mun úrtaksins milli ára í gagnasöfnunum og vinstri-hægri skalinn mælir stjórnmálalega afstöðu svarenda þar sem stjórnmálaflokkabreytan er ekki sambærileg 2004 og 2020 sökum útgöngu eldri flokka og inngöngu nýrra. Samvirknibreytan gerir kleift að prófa hvort marktækur munur sé á milli gagnasafnanna í garð viðhorfa til innflytjenda á þessu 16 ára tímabili skv. stjórnmálalegri afstöðu á vinstri-hægri skalanum.
    Niðurstöðurnar eru í samræmi við það sem hefur komið fram í erlendum og þverþjóðlegum rannsóknum. Stjórnmálaleg vinstri-hægri skautun er til staðar á Íslandi. Jafnframt því er greinilegt er að viðhorfsbreyting hefur orðið á milli árana 2004 og 2020. Það sem vakti mesta athygli var að hún gekk út á að vinstrimenn höfðu orðið mun jákvæðari í garð innflytjenda heldur en miðju- og hægrimenn.

Samþykkt: 
  • 4.5.2023
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/43842


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ma ritgerð - Patrekur Örn Oddsson.pdf912,74 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlýsing - Patrekur Örn Oddsson.pdf4,79 MBLokaðurYfirlýsingPDF