Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43868
Starfsánægja er það sem gefur starfinu gildi og er hún talin vera eitt af því mikilvægasta sem stjórnendur þurfa að hafa í huga til að ná því besta fram hjá starfsfólki sínu. Mikil verðmæti felast í góðu starfsfólki og virðist það vega þyngst þegar velgengni fyrirtækja eru greind. Ánægt starfsfólk er talið leggja meira á sig í vinnu sem hefur jákvæð áhrif á framlegð fyrirtækis. Miklar áherslubreytingar hafa verið í stjórnun á vinnustöðum síðustu árin og staða mannauðsstjórnunar innan fyrirtækja hefur gengið í gegnum miklar breytingar í takt við breytt vinnuumhverfi. Þessu fylgja margar áskoranir fyrir fyrirtæki sem mikilvægt er að fylgja eftir til að tryggja ánægt starfsfólk á vinnustað. Árið 2021 bjó grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon til starf sem hann kallar Móralska og starfar hann meðal annars hjá fyrirtækinu Gleðipinnum. Starfsstöðvar Gleðipinna eru 18 talsins og fer Móralski á milli staða einungis til þess að spjalla við starfsfólkið og er hugsunin að skilja eftir góðan móral og bros á vör. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hver sé upplifun starfsfólks Gleðipinna af þessu inngripi Móralska með það að leiðarljósi hvort það hafi áhrif á aukna starfsánægju á vinnustað. Framkvæmd var eigindleg rannsókn með því að taka viðtöl við níu veitingastjóra hjá fyrirtækinu Gleðipinnum. Niðurstöður rannsóknar sýndu að viðmælendur voru almennt mjög ánægðir með verkefni Móralska og það má segja að hann sé ný hugsun inn í hinn hraða heim breyttra vinnuumhverfa. Þá voru allir sammála um að Móralski sé skemmtilegur, hann skilji eftir bros á vör hjá starfsfólkinu og sé góð tilbreyting í hversdagsleikanum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS ritgerð_Vigdís Hauksdóttir 2023.pdf | 569,15 kB | Lokaður til...24.06.2027 | Heildartexti | ||
Lokaverkefni yfirlýsing_Vigdís Hauksdóttir.pdf | 1,3 MB | Lokaður | Yfirlýsing |