Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43913
Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á það hvernig réttarstaða brotaþola í kynferðisbrotamálum hefur þróast í íslenskum rétti í því skyni að leita svara við þeirri spurningu hvort þörf sé á frekari úrbótum. Í upphafi er gerð grein fyrir eðli kynferðsbrota frá sjónarhóli þolenda og helstu afleiðingum þeirra. Fjallað er sérstaklega um nauðgunarákvæði hegningarlaga, enda er nauðgun alvarlegasta brotið gegn kynfrelsi einstaklinga sem oftast reynir á í réttarframkvæmd. Farið er yfir sögulega þróun nauðgunarhugtaksins í íslenskum rétti og hvernig sú þróun hefur stuðlað að aukinni réttarvernd þolenda brotanna.
Því næst er fjallað um hugtakið brotaþoli sem kom fyrst fram á alþjóðavettvangi á árunum eftir síðari heimsstyrjöld, en síðan þá hefur alþjóðleg samvinna um vernd réttinda brotaþola farið ört vaxandi. Fjallað er um þær alþjóðaskuldbindingar um vernd þolenda kynferðisbrota sem Ísland hefur gengist undir. Þá er farið almennt yfir það hvernig staða brotaþola hefur þróast á Íslandi, ásamt því er gerð grein fyrir skilgreiningu hugtaksins brotaþoli samkvæmt sakamálalögum.
Enn fremur er vikið að því hvað felst í réttlátri málsmeðferð með tilliti til hagsmuna og réttinda brotaþola. Í þeirri umfjöllun er fjallað almennt um meðferð sakamála og síðan er gerð grein fyrir því hvernig meðferð mála horfir við brotaþola. Jafnframt er farið yfir nokkur grundvallarréttindi brotaþola.
Þar á eftir er fjallað um verndun almenns réttaröryggis brotaþola, sem er eitt meginmarkmið refsingar. Enn fremur er gerð grein fyrir sögulegri þróun réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum. Þá er fjallað um upplifun brotaþola af réttarkerfinu hér á landi. Í kjölfarið er kannað hvaða áhrif lög nr. 61/2022 hafa á núgildandi réttarstöðu brotaþola samkvæmt sakamálalögum. Til samanburðar er að lokum litið til stöðu brotaþola í norrænum rétti sem þróast hefur með ólíkum hætti og þeirra sjónarmiða sem liggja þar að baki.
Helstu niðurstöður eru að mikil breyting hefur orðið til batnaðar á réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum frá því sem áður var, einkum með setningu laga nr. 61/2022. Í lögum nr. 61/2022 fólst mikilvæg réttarbót þar sem brotaþola hafa verið veitt aukin réttindi til þátttöku í máli. Að því sögðu þykir ekki þörf á frekari úrbótum á réttarstöðu brotaþola að svo stöddu. Tíminn mun þó leiða í ljós hvort breytingar þessar munu í reynd tryggja stöðu hans við meðferð kynferðisbrotamála.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
AA MR Um réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum.pdf | 824,93 kB | Lokaður til...05.05.2060 | Heildartexti | ||
Ný yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis AA.pdf | 62,52 kB | Lokaður | Yfirlýsing |