Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43952
Inngangur. Kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar (CoNS) úr líkamsflóru geta valdið blóðsýkingum sem oftast eru íhlutatengdar. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á faraldsfræði CoNS-blóðsýkinga meðal sjúklinga á Landspítala sem áttu aðeins eina jákvæða blóðræktun.
Aðferðir. Rannsóknin var afturvirk og byggði á jákvæðum blóðræktunum af völdum CoNS frá sjúklingum á Landspítala. Úrtak rannsóknarinnar var valið frá öðru hverju ári á tímabilinu 2011-2021 og samanstóð af fullorðnum einstaklingum (≥18 ára) sem áttu aðeins eina CoNS- jákvæða blóðræktun, án annarra sýkla í sama blóðræktunarsetti, innan 48 klst. tímabils. CoNS sýking var skilgreind samkvæmt mati læknis sjúklings. Upplýsingar um sjúklinga fengust úr rafrænni sjúkraskrá Landspítalans og gagnagrunni Sýkla- og veirufræðideildar.
Niðurstöður. Úrtakið taldi 140 tilfelli frá 139 einstaklingum; meðalaldur var 64 (±17 ár) og 42% voru konur. 13 (9%) tilfelli töldust hafa blóðsýkingu og var hún æðaleggjatengd í 9 tilfellum. Alls voru 15% tilfella (7 tilfelli) frá blóð- og krabbameinslækningadeildum og 4% tilfella (2 tilfelli) frá bráðamóttöku metin sem sýking. Sjö CoNS tegundir greindust og var S. epidermidis algengasti sýkingar- og mengunarvaldurinn (77% og 35% tilfella). Meirihluti S. epidermidis og S. haemolyticus (62% og 78%) voru ónæmir fyrir oxasillíni en vankómýsíni ónæmi fannst ekki. Fjórir sjúklingar með blóðsýkingu skv. lækni (33%) létust í innlögn en andlátin voru ekki talin tengd CoNS sýkingunni.
Umræður. Rannsóknin bendir til að yfirgnæfandi meirihluti sjúklinga með eina CoNS- jákvæða blóðræktun innan 48 klst. tímabils hafi ekki CoNS blóðsýkingu. Blóðsýking greindist þó í 15% rannsóknarúrtaks á blóð- og krabbameinsdeildum og vert að hafa það í huga við mat á CoNS-jákvæðum blóðræktunum frá þessum sjúklingahópi.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Ritgerð.pdf | 1,74 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| Yfirlýsing-skemman.pdf | 487,13 kB | Lokaður | Yfirlýsing |