Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43966
Þessi ritgerð er lögð fram sem lokaverkefni til BA-prófs í almennum málvísindum við Háskóla Íslands. Markmið ritgerðarinnar er að kanna málhæfni einstaklinga með Williams-heilkenni. Málhæfni einstaklinga með heilkennið hefur verið mikið í umræðunni síðastliðin ár en hún er áhugaverð frá mörgum sjónarhornum, t.d. við aðgreiningu málkunnáttu frá hugrænum þroska, mikilvægi tengsla erfða og málfærni og til að svara þeirri spurningu hvort málhæfni einstaklinga með heilkennið sé óskert þrátt fyrir ýmsar vitsmunalegar áskoranir. Ljóst er að úrfelling á genum á 7. litningi hefur áhrif á málþroska manna þó margt annað sé á huldu. Vonandi verður ráðgátan um tengsl gena og tungumáls leyst í náinni framtíð.
Í þessari ritgerð var málhæfni einstaklinga með Williams-heilkenni skoðuð út frá eftirfarandi fjórum sviðum tungumálsins; hljóð- og hljóðkerfisfræði, merkingarfræði orða, málfræðikunnáttu og aðstæðubundinni málnotkun. Niðurstöður sýna að málkunnátta einstaklinga með Williams-heilkenni er frábrugðin málkunnáttu ófatlaðra einstaklinga. Máltaka þeirra er seinkuð en er samt sem áður í samræmi við vitsmunalegan þroska. Einstaklingar með heilkennið búa yfir ákveðnum styrk- og veikleikum á sviðum tungumáls. Hljóð- og hljóðkerfiskunnátta þeirra er talin til styrkleika sem og þekking þeirra á orðaforða, sér í lagi þekking á opnum orðflokkum. Flest bendir til þess að setninga- og orðhlutafræði þróist á hefðbundinn hátt og málfræðikunnátta þeirra sé barna með hefðbundinn málþroska. Aðstæðubundin málnotkun telst til veikleika þrátt fyrir afbragðs félagslegan persónuleika þeirra. Áhugaverðast er að máltjáning þeirra er ekki í samræmi við málskilning þeirra, þ.e. þau tjá sig oft á tíðum með segðum sem þau skilja sjálf ekki en þetta er afar óalgengt þar sem börn skilja yfirleitt meira en þau geta tjáð.
Rannsóknir sem ég byggi ritgerðina á eru erlendar en engar rannsóknir hafa verið birtar sem byggja á athugunum á íslenskumælandi börnum eða fullorðnum einstaklingum með Williams-heilkenni þótt Alda B. Möller hafi tekið viðtöl við Íslendinga með Williams-heilkennið og flutt fyrirlestur um niðurstöður sínar á vegum íslenskra málfræðifélagsins í ársbyrjun 2013. Þar sem íslenska er beygingarmál sem er ríkt af beygingum væri þó tilvalið að kanna t.d. tileinkun málfræðilegs kyns eða annarra beygingarformdeilda í máli íslenskra málhafa með Williams-heilkenni.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Skemman yfirlysing.jpg | 179,67 kB | Lokaður | Heildartexti | JPG | |
| BA_NannaKY_Lokautgafa.pdf | 719,22 kB | Opinn | Yfirlýsing | Skoða/Opna |