Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43967
Þessi ritgerð fjallar um erlend viðskiptatengsl á tímabilinu 900-1500 eins og þau koma fram í öskuhaugunum á Skútustöðum í Mývatnssveit. Utanlandsviðskipti hafa alltaf verið stunduð á Íslandi en í mismiklum mæli og verður hér reynt að varpa ljósi á það hversu mikið Íslendingar reiddu sig á erlendan varning og hvernig viðskiptunum hefur verið háttað. Talið hefur verið að Íslendingar hafi haft mikla þörf fyrir erlendar vörur en seint á síðustu öld kom sú skoðun fram að á Íslandi hafi hagkerfið einkennst af sjálfsþurft. Þar með hafi ekki, eða lítið, verið framleitt fyrir markaði og erlend verslun verið takmörkuð. Fornleifauppgreftir hafa stutt við þá skoðun þar sem almennt finnst mun minna af erlendum en innlendum gripum á tímabilum fyrir 16. öld. Gripasöfn frá tímabilinu 1100 til 1500 eru lítil og fá og því var brýnt að skoða það tímabil sérstaklega. Í ritgerðinni er farið yfir gripasafnið frá Skútustöðum og því skipt í tvennt; innlend og erlend efni. Erlendu efnisflokkunum eru síðan gerð frekari skil til að varpa ljósi á það hvaða innflutta varningi Íslendingar sóttust eftir og hvaðan hann kom. Að lokum er umfjöllun um vægi utanlandsverslunar á Skútustöðum og hvort hún hafi breyst í gegnum aldirnar. Niðurstaðan er sú að á Skútustöðum hafi verið stunduð erlend verslun í mjög litlum mæli. Hún hefur þó aukist eftir 1300 og aftur eftir 1500. Heimilið á Skútustöðum hefur ekki framleitt vörur fyrir markað og hefur vægi utanlandsverslunar haft tiltölulega lítil áhrif á efnahag þess.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA ritgerð.pdf | 568.06 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
IMG_0108.jpg | 3.34 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |