Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44030
Eftirfarandi ritgerð, sem lögð er fram til B.A.-prófs í íslensku við Háskóla Íslands, fjallar um breytileika í fallmörkun í andlægri og frumlægri frumlagslyftingu með sögnum sem taka frumlag í þolfalli eða þágufalli í íslensku. Þessar þolfalls- og þágufallssagnir standa þá í nafnháttarsetningu á eftir tal- eða álitssögn í formgerð sem er nefnd í germynd andlæg frumlagslyfting (e. subject-to-object raising) eða þolfall með nafnhætti (lat. accusativus cum infinitivo). Það eru setningar á borð við Þau töldu manninn vera vitran, þar sem frumlag nafnháttarsagnarinnar fer í andlagssæti móðursetningar. Þegar móðursetningin er í þolmynd er hins vegar talað um frumlæga frumlagslyftingu (e. subject-to-subject raising) eða nefnifall með nafnhætti (lat. nominativus cum infinitivo). Þá fer frumlag nafnháttarsagnarinnar í frumlagssæti móðursetningarinnar í setningum eins og Maðurinn er talinn vera vitur.
Eins og latnesku hugtökin gefa til kynna stýra þessar formgerðir annars vegar þolfalli á frumlagi nafnháttarins í germynd, t.d Þau töldu manninn (þf.) vera vitran, og hins vegar nefnifalli í þolmynd, t.d. Maðurinn (nf.) var talinn vera vitur. Samkvæmt málstaðli á það hins vegar einungis við um formgerðarfall, þ.e. þegar sögnin í nafnháttarsetningunni tekur nefnifall á frumlagi sínu. Svokallað orðasafnsfall, líkt og þolfall eða þágufall á frumlagi sagnar, ætti hins vegar að halda aukafalli sínu í andlægri og frumlægri frumlagslyftingu, t.d. Hún sagði krökkunum (þgf.) leiðast og Krökkunum (þgf.) er sagt leiðast, í stað fallglötunar á borð við Hún sagði krakkana (þf.) leiðast eða Krakkarnir (nf.) eru sagðir leiðast.
Niðurstöður dómaprófs, auk dæmasöfnunar í Risamálheildinni, sýna hins vegar hátt hlutfall fráviks frá þessum fallmörkunarreglum, sérstaklega í frumlægri frumlagslyftingu á borð við Lögregluna (þf.) er sagt skorta mannafla eða Henni (þgf.) er sagt þykja vænt um nemendur sína. Í dómaprófi fengu slíkar setningar aldrei meira en 24% samþykki en samsvarandi fallglötunardæmi (Lögreglan (nf.) er sögð skorta mannafla og Hún (nf.) er sögð þykja vænt um nemendur sína) fengu hins vegar allt að 50% samþykki. Þótt komið hafi á óvart hve margir samþykktu fallglötunardæmi sem sýndu frávik frá málstaðli kom ekki síður á óvart að almennt virtist málhöfum hvorki þykja fallglötun né fallfesta góð í setningunum. Engin prófsetning fékk meira en helmings samþykki, óháð því hvort hún sýndi staðalgerð eða frávik. Þær niðurstöður eru óvenjulegar, því að þótt margar fyrri rannsóknir á fallatilbrigðum sýni að málhafar hafi oft bæði staðalgerð og fráviksgerð í máli sínu, telst það til undantekninga að þeir telji hvoruga gerðina tæka.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlysing_HrSv.pdf | 431.42 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
BA_Hrefna_Svavarsdottir_1.pdf | 853.2 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |