Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44058
Þessi ritgerð er lögð fram til BA-prófs í almennri bókmenntafræði við Hugvísindasvið
Háskóla Íslands. Umfjöllunarefni hennar er skáldsagan Lungu (2022) eftir Pedro
Gunnlaug García og er hún skoðuð með hliðsjón af kenningum um töfraraunsæi.
Ritgerðin er tvískipt. Í fyrri hluta er fjallað um uppruna, sögu og ólíkar skilgreiningar á
töfraraunsæishugtakinu enda fræðimenn ósammála um hvaða einkenni bókmenntaverk
þurfi að hafa svo það teljist tilheyra stefnunni. Þá er rætt um tengsl töfraraunsæis við
Suður-Ameríku og áhrif stefnunnar í kjölfar „suður-amerísku sprengingarinnar“ á 7. og
8. áratug síðustu aldar. Töfraraunsæi í íslenskum bókmenntum er einnig til umfjöllunar
sem og tengsl þess við goðsöguna.
Seinni hluti ritgerðarinnar felst í greiningu á skáldsögunni þar sem sérstök áhersla
er lögð á að skoða þau atriði þar sem hvers kyns töfrar koma við sögu. Ýmis einkenni á
sögunni Lungu, önnur en töfrar, falla að skilgreiningu fræðimannsins Wendy B. Faris á
töfraraunsæi, svo sem alþjóðlegir eiginleikar hennar, tengsl við forn minni og gagnrýni á
regluverk nútímans. Merking töfranna og þýðing þeirra í frásögninni er túlkuð og dregið
fram hvernig þeir endurspegla gjarnan innra líf persónanna og veita vísbendingar um það
sem koma skal í lífi þeirra. Tengsl töfra við fortíð, nútíð og framtíð eru gerð að sérstöku
umfjöllunarefni en skáldsagan spannar um 170 ár og teygir anga sína jafnt fram og aftur
í tímann. Sýnt er fram á að töfrar frásagnarinnar eru helst bundnir við fyrri hluta hennar.
Þá er gerð grein fyrir því hvernig dregur úr hvers kyns furðum eftir því sem líður á söguna
og sögusviðið nálgast okkar nútíma. Birtingarmynd nútímans í sögunni má því túlka sem
ádeilu á þá rökhyggju sem einkennir samtímann. Framtíðin er einnig eitt sögusvið
frásagnarinnar en þar hafa annars konar undur í formi tækninýjunga tekið við af töfrunum.
Sýnt er fram á hvernig skil töfra og tækni verða óljós í framtíð sögunnar og færð rök fyrir
því að í hugum sumra lesenda gætu þau verið mjög á reiki. Greining á skáldsögunni leiðir
í ljós að hugtök á borð við töfraraunsæi og töfra er ekki hægt að fastsetja, tilefni er til að
endurskoða þau við greiningu á nýjum bókmenntaverkum
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerd_Frida_Thorkelsdottir.pdf | 295,55 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing.jpg | 189,41 kB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |