is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44191

Titill: 
  • Réttmætur samanburður lífeyrissjóða: Þróun eftirlaunaréttinda í íslenskum lífeyrissjóðum
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Íslenska lífeyriskerfið byggir á þremur stoðum en það eru almannatryggingar, lögbundinn lífeyrissparnaður og valfrjáls viðbótarlífeyrissparnaður. Þessi þrískipting hefur reynst vel til að sinna hlutverki kerfisins sem er að viðhalda ráðstöfunartekjum fólks þegar vinnuþrek þess dregst saman. Íslenskir lífeyrissjóðir eru ólíkir meðal annars vegna meðhöndlunar þeirra á skylduiðgjöldum sem greidd eru til þeirra. Sumir bjóða eingöngu upp á samtryggingarréttindi en aðrir bjóða upp á blöndu samtryggingar og séreignar.
    Það hvernig greiðslur til lífeyrissjóða mynda réttindi til lífeyrisgreiðslna getur reynst torskilið. Þegar um séreign sjóðfélaga er að ræða þá mynda greiðslur eign sem sjóðfélaginn á og sem engin annar getur gengið að. Samtryggingarréttindi eru frábrugðin að því leyti að þá eignast sjóðfélaginn réttindi til ákveðinna lífeyrisgreiðslna sem hann fær svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði til útgreiðslu. Þessi samtryggingarréttindi myndast út frá réttindatöflum sem byggja á ýmsum forsendum til að mynda um raunávöxtun lífeyrissjóðanna, lífslíkur og örorkutíðni. Þessar réttindatöflur taka tíðum breytingum sem hafa þar með áhrif á réttindaöflun sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir breyta einnig áunnum réttindum afturvirkt ef í ljós kemur að tryggingafræðileg staða sjóðsins er í ójafnvægi en sú staða segir til um hversu vel eignir lífeyrissjóðsins standa undir skuldbindingum hans.
    Ýmsir þættir geta haft áhrif á getu lífeyrissjóða til að halda tryggingafræðilegu stöðu sinni í jafnvægi. Þessir þættir hafa þar af leiðandi áhrif á réttindastöðu sjóðfélaga. Þessir áhrifaþættir eru meðal annars ávöxtun, hagkvæmni og sjóðfélagasamsetning sjóðanna.
    Samanburður á árangri lífeyrissjóða í að umbreyta lífeyrissparnaði fólks í samtryggingarréttindi hefur verið af skornum skammti. Til þessa hefur athyglin oftar en ekki beinst að ávöxtunarsamanburði en slíkur samanburður er oft bjagaður og horfir fram hjá ýmsum þáttum sem hafa áhrif á réttindaöflun.
    Til að bæta úr og gera réttmætari samanburð sem endurspeglar betur getu sjóðanna í að umbreyta iðgjöldum í samtryggingarréttindi var framkvæmdur réttindasamanburður á Almenna lífeyrissjóðinum, Frjálsa lífeyrissjóðinum, Gildi, Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda á tímabilinu 2006-2021. Settar voru upp sviðsmyndir byggðar á forsendum um sjóðfélaga. Tekið var tillit til réttindatafla sjóðanna sem voru í gildi á tímabilinu og breytinga sjóðanna á áunnum réttindum sem samþykktar voru innan tímabilsins. Með samanburðinum má bera saman þau mánaðarlegu samtryggingarréttindi sem sambærilegir sjóðfélagar áttu í lífeyrissjóðunum fimm í lok tímabilsins.
    Í ljós kom að mikill munur var á þeim réttindum sem sjóðfélagar áunnu sér á tímabilinu eftir því í hvaða sjóði þeir voru bæði þegar leiðrétt er fyrir tryggingafræðilegri stöðu í lok tímabilsins og ekki. Framkvæmdur var samanburður á virkum sjóðfélaga, sem greiddi iðgjöld statt og stöðugt yfir tímabilið, sem og óvirkum sjóðfélaga, sem greiddi engin iðgjöld yfir tímabilið en hafði áunnið sér réttindi í upphafi tímabilsins.

Samþykkt: 
  • 12.5.2023
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/44191


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Réttmætur samanburður lífeyrissjóða.pdf980.98 kBLokaður til...01.01.2025HeildartextiPDF
Yfirlýsing um meðferð verkefnis.pdf272.63 kBLokaðurYfirlýsingPDF