Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/442
Breytilegt ástand á erlendum mörkuðum er nokkuð sem útflytjendur íslenskra sjávarafurða hafa þurft að búa við og má gera ráð fyrir því að svo verði áfram um ókomna framtíð. Breytingar eiga sér stað af ýmsum ástæðum. Oft eru þær til skemmri tíma en sú er þó ekki alltaf raunin. Því er það nauðsynlegt hverjum þeim, sem flytur út sjávarafurðir, að vera ávallt á varðbergi gagnvart breytingum sem kunna að vera í uppsiglingu og vera þannig tilbúinn að vinna með þeim þegar þær eiga sér stað, til hagsbóta fyrir sig og sína.
Miklar breytingar urðu á íslenska togaraflotanum frá miðjum 9. áratug síðustu aldar, þegar fyrsti íslenski frystitogarinn kom til sögunnar, og fram á fyrstu ár þessarar aldar þar sem fjöldi frystitogara jókst jafnt og þétt.
Samkeppni frá öðrum löndum, með tilheyrandi lækkun á afurðaverði sjófrystra afurða, varð til þess að þessari þróun var snúið og sú vinnsla á þorski og ýsu sem átt hafði sér stað úti á sjó, árin á undan, fluttist að stóru leyti á ný til fiskvinnslustöðva í landi. Þannig var samkeppni við frystar afurðir, annars staðar frá, svarað með auknum útflutningi á ferskum afurðum. Er þetta glöggt dæmi um það hvernig hægt er að svara breytingum með því að færa sér þær í nyt. Íslenskir útflytjendur áttu hins vegar fá svör við þeirri miklu aukningu á aflamarki ýsu, sem varð á því tímabili sem til skoðunar er, önnur en þau að senda aukið magn afurða á þá fáu markaði sem til staðar voru með tilheyrandi verðlækkunum. Þetta voru breytingar sem enginn reiknaði með, en flestir höfðu þó vonast eftir, það er að segja mikil aukning aflamarks.
Í þessari ritgerð var skoðað hverning útflutningsmagn og verðmæti ákveðinna afurðaflokka, þróuðust á árunum 1999-2004 með tilliti til stærstu markaða. Í framhaldi af því var athugað hvort fylgni væri á milli stærðar markaða og þess verðs sem þeir greiða fyrir afurðirnar. Kom í ljós að stærri markaðir borguðu yfirleitt lægri verð en þeir smærri.
Sjávarafurðir, markaðir, afurðaverð, þorskur, ýsa.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
virðiskeðja.pdf | 2.54 MB | Takmarkaður | Virðiskeðja sjávarafurða - heild | ||
virðiskeðja_e.pdf | 369.91 kB | Opinn | Virðiskeðja sjávarafurða - efnisyfirlit | Skoða/Opna | |
virðiskeðja_h.pdf | 413.85 kB | Opinn | Virðiskeðja sjávarafurða - heimildaskrá | Skoða/Opna | |
virðiskeðja_u.pdf | 401.56 kB | Opinn | Virðiskeðja sjávarafurða - útdráttur | Skoða/Opna |