Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44216
Inngangur: Gerðar hafa verið rannsóknir á Íslandi á mjaðmagrindarbrotum en þær tóku aðallega fyrir lágorkubrot, sem eru fyrst og fremst beinþynningarbrot. Markmið þessarar rannsóknar er því háorkubrot á mjaðmagrindinni, flokkun þeirra, meðhöndlun, viðbótaráverkar og afleiðingar.
Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni voru skoðuð sjúkraskrárgögn einstaklinga sem leituðu á Landspítala á tímabilinu 1998-2022 og voru greindir með háorkumjaðmagrindaráverka. Kennitölur fengust hjá Hagdeildinni út frá ICD-10 kóðum. Greiningar voru staðfestar út frá myndrannsóknum, upplýsingum síðan safnað í Sögukerfinu og skráð hvort gera þurfti aðgerð eða ekki ásamt mögulegum afleiðingum. Brotin voru síðan flokkuð eftir AO/OTA flokkunarkerfinu út frá myndrannsóknum í forritinu Agfa.
Niðurstöður: Alls voru 466 einstaklingar sem höfðu fengið háorkuáverka á mjaðmagrindina á rannsóknartímabilinu (meðalaldur 41,1 ár, 40,3% konur). Nýgengi áverka fór lækkandi á þessu 25 ára tímabili. Algengustu brotaflokkar áverka á mjaðmagrindarhringnum voru B2 og B3 (óstöðug í snúningi). Augnkarlsbrotin voru algengust á framhluta hans. Minnihluti sjúklinga með brot á mjaðmagrindinni fór í aðgerð. Hæst hlutfall aðgerða meðal hringbrota var hjá flokki C (óstöðug í snúning og lóðrétt) (75,6%) og þverbrot (58,1%) hjá augnkarlsbrotunum. Fylgikvillar meðal þeirra sem fóru í aðgerð voru minniháttar sýkingar og los á festibúnaði. Algengasta orsök brota var umferðaróhapp – hliðarárekstur. Flest óhöppin áttu sér stað í maímánuði. Meirihluti einstaklinga hlaut viðbótaráverka (64,4%). Dánartíðni af völdum mjaðmagrindaráverka var aðeins 0,86%.
Ályktun: Nýgengi háorkumjaðmagrindaráverka á Íslandi 1998-2022 (25 ár) er sambærileg því sem sést erlendis. Háorkuáverkar á mjaðmagrindinni eru algengari meðal karla og eiga sér frekar stað hjá yngra fólki. Algengasta orsök áverkanna er hliðarárekstur. Minnihluti sjúklinganna fór í aðgerð vegna mjaðmagrindaráverkanna á tímabilinu.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| BS verkefni - Nanna Óttarsdóttir .pdf | 3,34 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| Skemman_yfirlysing (1).pdf | 160,26 kB | Lokaður | Yfirlýsing |