Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44261
Inngangur: Þekkt er að lífshlaup einstaklinga með geðrofssjúkdóma er að jafnaði 15-20 árum styttra en hjá almennu þýði. Á síðustu árum hefur orðið aukin áhersla á að skoða geðsjúkdóma í víðara samhengi en áður með þetta í huga. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna þætti sem tengjast efnaskiptum og næringu hjá sjúklingum með geðrofssjúkdóm.
Efni og aðferðir: Þátttakendur rannsóknarinnar eru 444 einstaklingar sem sóttu meðferð á göngudeild Klepps, Laugarási meðferðargeðdeild eða í samfélagsgeðteymi. Greining á geðrofssjúkdómi var skilyrði fyrir þátttöku. Gögn voru fengin úr sjúkraskrám þátttakenda og tölfræðiúrvinnsla unnin í Excel og tölfræðiforritinu R. REFINE rannsókn Hjartaverndar var notuð til samanburðar við almennt þýði.
Niðurstöður: Hlutfall þátttakenda með líkamsþyngdarstuðul ≥ 30 var skoðað og borið saman við almennt þýði en mestur munur fannst hjá aldurshópnum 25-39 ára. Þar var hlutfall karla með líkamsþyngdarstuðul ≥ 30 hjá rannsóknarþýðinu 43,4% en 16% hjá samanburðarhópi og hlutfall kvenna 44,9% á móti 18,3%. Sykursýki var algengari í öllum aldurshópum rannsóknarþýðis en í almennu þýði. Meðalgildi líkamsþyngdarstuðuls þátttakenda með meðferðarþráan sjúkdóm var 30,7 hjá körlum og 32,8 hjá konum samanborið við 28,2 hjá körlum og 29,4 hjá konum sem ekki teljast vera með meðferðarþráan sjúkdóm. Þá höfðu þátttakendur með meðferðarþráan sjúkdóm hærra meðalgildi kólesteróls og þríglýseríðs í blóði.
Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að það halli töluvert á einstaklinga sem sækja meðferð við geðrofssjúkdómum þegar kemur að næringarástandi og lífsstílstengdum kvillum. Með frekari rannsóknum og aukinni áherslu á meðhöndlun þessara þátta er möguleiki að hægt sé að bæta líkamlega heilsu og auka lífsgæði þessa sjúklingahóps.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
bspdfskil.pdf | 854,56 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_skila.pdf | 230,71 kB | Lokaður | Yfirlýsing |