Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44268
Þróun miðla á undanförnum árum hefur leitt til breytinga á aðferðum fyrirtækja við markaðssetningu. Samfélagsmiðlar hafa rutt sér inn á markaðinn sem öflugt tól til þess að ná til neytenda og áhrif þeirra á hefðbundna miðla verið mikil, eða hvað? Fyrirtæki eru stöðugt að leita leiða til þess að vera samkeppnishæf í markaðsstarfi sínu. Til þess að skoða nánar muninn á samfélagsmiðlum og hefðbundnum miðlum í markaðssetningu var markmið þessarar ritgerðar að kanna að hvaða leyti samfélagsmiðlar geta reynst árangursríkari fyrirtækjum í markaðssetningu en hefðbundnir miðlar. Til þess að kanna það var beitt bæði megindlegum og eigindlegum rannsóknum. Eigindlegi hlutinn var í formi djúpviðtala við sérfræðinga í faginu, og megindlegi hlutinn var í formi spurningakönnunar þar sem þátttakendur voru 292. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að samfélagsmiðlar eru árangursríkari en hefðbundnir miðlar hvað varðar það að ná til viðskiptavina. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að samfélagsmiðlar gera fyrirtækjum kleift að miða á sinn tiltekna markhóp á auðveldari hátt en hefðbundnir miðlar bjóða upp á. Samfélagsmiðlar reyndust einnig árangursríkari í því að hafa áhrif á kauphegðun viðskiptavina til skamms tíma. Auk þess voru vísbendingar um að samfélagsmiðlar gætu verið jafn áhrifaríkir hefðbundnum miðlum hvað varðar vörumerkjavitund til langs tíma. Niðurstöður rannsóknarinnar veita fyrirtækjum dýrmæta innsýn til þess að hámarka markaðsstarf sitt. Rannsóknin bendir til þess að mikilvægt sé fyrir fyrirtæki að tileinka sér samfélagsmiðla til þess að vera samkeppnishæf á stafrænum tímum nútímans, í bland við hefðbundna miðla.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Markaðssetning á tímum samfélagsmiðla.pdf | 1,1 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |