Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44270
Tilgangur þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á upplifun starfsmanna Veðurstofu Íslands á tímum yfirstandandi skipulagsbreytinga stofnunarinnar. Horft er til fræðilegra þátta sem snúa að breytingum skipulagsheilda og menningu þeirra. Í rannsóknum um breytingar á skipulagsheildum hefur verið sýnt fram á að huga þarf að mörgum þáttum í breytingarferlinu til að tryggja sem mestan árangur. Mikilvægt er að ferli breytinga sé stýrt með ábyrgum hætti, gætt að upplýsingagjöf og samskiptum, hvatt til þátttöku og brugðist við andstöðu sem getur myndast ferlinu. Hlutverk leiðtogans er veigamikið í breytingarferli og getur aðkoma hans og stjórnun skipt sköpum fyrir að árangur breytinga nái tilætluðum markmiðum og árangri. Menning skipulagsheilda getur haft mikil áhrif á árangur þeirra, vinnuumhverfið og starfsfólk. Þegar skipulagsheildir fara í gegnum breytingar, getur þurft að breyta menningunni til að breytingar nái að festast í sessi í skipulagsheildinni. Gegnir leiðtoginn það mikilvægu hlutverki þar sem hann getur haft mikil áhrif á vinnustaðamenningu með stýringu og með því að ganga fram með góðu fordæmi. Í rannsókninni var beitt eigindlegri rannsóknaraðferð og tekin voru átta hálf opin óstöðluð viðtöl við starfsmenn Veðurstofu Íslands og í greiningu gagna voru notaðar aðferðir grundaðrar kenningar. Leitast var við að hafa hóp viðmælenda úr öllum sviðum fyrra skipurits Veðurstofu Íslands.
Helstu niðurstöður voru að starfsmenn Veðurstofu Íslands voru jákvæðir í garð skipulagsbreytinganna og höfðu væntingar um að þær væru skref í rétta átt fyrir stofnunina og starfsemi hennar. Brýn þörf var á að Veðurstofan færi í breytingar þar sem ýmis vandamál voru að hindra framgang og skilvirkni stofnunarinnar. Reynt hafði verið að leysa þessi vandamál án þess að nægjanlegur árangur næðist. Miklar breytingar eru fram undan á Veðurstofu Íslands, bæði eru forstjóraskipti fyrirhuguð árið 2023 og hefur ráðherra Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis boðað sameiningu stofnanna í lok sama árs eða í byrjun árs 2024. Því er framtíðarsýn stofnunarinnar óljós og erfitt að hafa skýra sýn að leiðarljósi í gegnum breytingarferli. Niðurstöður sýndu samt sem áður að jákvæð teikn væri á lofti og ávinningur skipulagbreytinganna væri til góðs, þrátt fyrir óljósa framtíðarsýn. Þegar rannsóknin var gerð var Veðurstofa Íslands í miðjum skipulagsbreytingum og tekur rannsóknin mið að því.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru gott veganesti fyrir komandi breytingar, sem fram undan eru hjá Veðurstofu Íslands, bæði þegar fyrirhuguð forstjóraskipti verða og sameining stofnanna undir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, þar sem Veðurstofan verður sameinuð öðrum stofnunum. Einnig gætu aðrar skipulagsheildir sem eru að fara í eða eru í breytingarferli dregið lærdóm af þessum niðurstöðum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lára Björk Erlingsdóttir - Meistararitgerð .pdf | 807,04 kB | Lokaður til...24.06.2025 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing um með ferð lokaverkefnis.pdf | 263,36 kB | Lokaður | Yfirlýsing |