is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44349

Titill: 
  • Hlutfall kvenna 75 ára og eldri sem greinast með brjóstakrabbamein á Brjóstamiðstöð Landspítalans: Er hámarksaldur brjóstaskimunar á Íslandi of lágur?
Námsstig: 
  • Diplóma meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Inngangur: Brjóstakrabbamein er eitt af algengustu krabbameinum kvenna með 2.3 milljón greindra kvenna árið 2020 á heimsvísu og 685.000 sem létust af völdum þess. Hér á landi greinast að meðaltali 248 konur á ári með brjóstakrabbamein en dánartíðni hefur farið lækkandi seinustu ár og helsta ástæðan fyrir því er brjóstaskimun sem er í boði fyrir einkennalausar konur hér á landi á aldrinum 40-74 ára. Gögn Krabbameinsfélagsins um brjóstakrabbamein sýna að yfir árin 2017-2021 var aldursbundið nýgengi hæst hjá konum á aldursbilinu 75-79 ára og því er grundvöllur til þess að skoðað sé hvort að tilefni sé til þess að hækka hámarksskimunaraldur. Gerðar hafa verið rannsóknir á ávinnings- og áhættuþáttum fyrir hvern aldurshóp, en rannsóknir á konum 75 ára og eldri hafa ekki verið nægilegar til þess að hámarksaldur brjóstaskimunar yrði hækkaður. Tíðni brjóstakrabbameina og næmni rannsóknanna er meiri með hækkandi aldri en talið er að ávinningurinn sé ekki nægilega mikill þar sem með hækkandi aldri er hærri dánartíðni og styttri lífslíkur.
    Markmið: Markmið þessarar rannsóknar er að skoða hlutfall þeirra kvenna sem eru 75 ára eða eldri og greinast með brjóstakrabbamein út frá rannsóknum hjá Brjóstamiðstöð, skimun og greining á Landspítalanum og meta hvort að hlutfallið gefi ástæðu til að endurskoða hámarksskimunaraldur í brjóstaskimun á Íslandi og hækka hann.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin er aftursýn megindleg rannsókn og gögn voru sótt frá myndgreiningarkerfinu Agfa Enterprise Imaging, Sögukerfi Landspítalans og Hagstofu Íslands. Rannsóknarúrtak eru konur á aldrinum 75 ára og eldri sem fóru í rannsóknir á Brjóstamiðstöð, Skimun og greining á tímabilinu 01.04.2021-31.01.2023. Reiknuð hlutföll voru ýmist borin saman við meðalíbúafjölda, þær konur sem fóru í rannsóknir eða þær konur sem fóru í sýnatöku. Aðallega var skoðað hlutföll þeirra kvenna sem greindust með brjóstakrabbamein. Við úrvinnslu gagnanna var notað Microsoft Excel og gögnin voru skipt upp eftir 5 ára aldursbilum og árum. Kí-kvaðrat tilgátupróf var framkvæmt á gögnin til þess að meta hvort að marktækur munur væri milli aldurshópa sem fóru í rannsóknir.
    Niðurstöður: Alls var safnað gögnum um 367 einstaklinga frá Agfa Enterprise Imaging og þar af var sótt niðurstöðu sýnatöku í Sögukerfinu hjá 123 einstaklingum. Rannsóknin sýndi að hjá þeim konum sem fóru í rannsóknir var aldursbundin nýgengi hæst hjá aldurshópnum 75-79 ára. Hæsta reiknað hlutfall kvenna sem fóru í rannsóknir og greindust með brjóstakrabbamein af meðalíbúafjölda var í aldurshópnum 75-79 ára en af þeim konum sem fóru í rannsóknir reiknaðist hæsta hlutfall brjóstakrabbameinsgreininga hjá aldurshópnum 95-99 ára. Engin kona á aldrinum 100-109 ára fór í rannsóknir á rannsóknartímabilinu.
    Ályktanir: Ályktað var að konur í aldurshópnum 75-79 ára eru líklegri til að greinast með brjóstakrabbamein heldur en konur á aldrinum 80-109 ára. Rannsóknin sýnir einnig að þegar konur fara í rannsóknir fer hlutfall þeirra kvenna sem fara í sýnatöku og greinast með brjóstakrabbamein í kjölfarið hækkandi með hækkandi aldri og því var ályktað að því eldri sem þær eru þegar þær fara í rannsóknir, því líklegra er að þær greinist með brjóstakrabbamein. Rannsóknin ein og sér dugar ekki til að geta ályktað hvort að hækka ætti hámarksskimunaraldur kvenna á Íslandi eða ekki en hún getur stuðlað að umbótum og endurskoðunum fyrir þennan aldurshóp í brjóstarannsóknum.

Samþykkt: 
  • 19.5.2023
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/44349


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerð Særún Ósk.pdf6.25 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Saerunosk_yfirlysing.pdf229.88 kBLokaðurYfirlýsingPDF