Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44393
Inngangur: Huga þarf vel að tökugildum og geislaskömmtum við röntgenrannsóknir á börnum. Börn eru mun næmari fyrir geislun en fullorðið fólk og getur geislun haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Frumuskiptingar barna eru mun örari en hjá fullorðnum einstaklingum og er því auðveldara fyrir röntgengeisla að hafa áhrif á frumur barna. Röntgenrannsókn af kviðarholi barna er algeng myndgreiningarannsókn. Hún er oft notuð sem greining á hægðatregðu en ágreiningur er á um það hvort röntgenrannsókn sé réttlætanleg aðferð til greiningar þegar grunur er um hægðatregðu barna.
Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að skoða geislunarvísana EI, EIT og DI. Með skoðun á DI gildum rannsókna er hægt að leggja mat á þann geislaskammt sem börn fengu við rannsókn. Með þessu er hægt að kanna það hversu mörg börn verða fyrir van- eða yfirgeislun og hversu mörg þeirra fá viðunandi geislun.
Efni og aðferðir: Rannsóknin er megindleg afturvirk gagnarannsókn á börnum sem fóru í myndgreiningarannsókn af kviðarholi á árunum 2021 til 2022. Rannsóknin gagnast til umbóta í myndgreiningarþjónustu fyrir börn sem þurfa að gangast undir röntgenrannsókn af kviðarholi. Úrtak rannsóknar eru börn á aldrinum 0-12 ára. Gögnum var skipt upp í fjóra aldurshópa (0-2 ára, 3-5 ára, 6- 8 ára og 9-12). Alls var 50 gögnum safnað handahófskennt fyrir hvern aldurshóp á hvoru ári. Upplýsingar um geislunarvísa (EI, EIT og DI) ásamt flatargeislun (DAP) fengust úr röntgentækjum Landspítalans, bæði frá Hringbraut og Fossvogi.
Niðurstöður: Úrtak rannsóknar var 390 rannsóknir. Alls komu 230 (59%) börn í röntgenrannsókn af kviðarholi vegna spurningar um hægðatregðu, 78 (20%) vegna aðskotahlutar og 82 (21%) vegna annarra ástæðna. Niðurstöður sýna að 199 rannsókna (51%) urðu fyrir of mikilli geislun.128 rannsóknir (33%) voru rétt geislaðar og 63 rannsóknir (16%) voru vangeislaðar.
Ályktanir: Við skoðun DI gilda þeirra rannsókna sem safnað var fyrir þessa rannsókn er hægt að álykta það að verið er að notast við óviðunandi tökugildi hjá börnum 0-5 ára. Aldurshóparnir 6-8 og 9-12 ára voru með mun betri DI gildi sem bendir til þess að aðferðarlýsingar sem notast er við fyrir þá aldurshópa séu með viðunandi tökugildi. Börn á þessum aldri eru viðkvæmari fyrir geislun en fullorðnir. Gagnlegt væri að endurskoða aðferðarlýsingar hjá aldurshópum 0-2 ára og 3-5 ára til umbóta á þeim tökugildum sem notast er við.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
saraolsen_diploma.pdf | 1.5 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing.pdf | 440.87 kB | Lokaður | Yfirlýsing |