Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/44449
Inngangur: Síðustu ár hefur verið hröð þróun í myndgreiningum og má þar helst nefna tölvusneiðmyndatæki. Ljóseindatalninga tölvusneiðmyndatækni (LTTS) er nýjasta þróun tölvusneiðmyndatækja og var tæknin fyrst þróuð á áttunda áratugnum en tekin í klíníska notkun árið 2021. LTTS tæknin notar sérstakan myndskynjara sem getur numið og talið hverja einustu ljóseind sem á honum lendir burt séð frá orkugildi hennar. Ljóseindirnar eru því næst flokkaðar eftir orkugildum þeirra og vinnur tölvan þá úr þeim upplýsingum eftir orkugildum. Talning ljóseinda býður upp á betri myndupplausn, minna myndsuð og minni geislaskammt þar sem færri ljóseindir þarf til að búa til mynd.
Framleiðendur LTTS tækja fullyrða að þessi nýja tækni sé með fleiri kosti samanborið við hefðbundið TS en samantekt um LTTS tækni og kosti hennar skortir.
Markmið: Markmið ritgerðarinnar var að rannsaka niðurstöður samanburðarrannsókna á LTTS og hefðbundið TS m.t.t. ákveðinna kosta sem framleiðendur gefa út að LTTS hafi fram yfir hefðbundið TS: Búið er að útrýma suði í LTTS rannsóknum. Geislaskammtar eru minni í LTTS rannsóknum. Aðgreining vefja með LTTS er betri en í hefðbundið TS. Myndgallar eru minni með notkun LTTS.
Efni og aðferðir: Framkvæmd var kerfisbundin heimildaleit í gagnagrunnum PubMed. Vísindagreinum var safnað saman þar sem rannsóknir gerðar með LTTS tæki og hefðbundið TS voru rannsakaðar. Súlurit og töflur voru notaðar við samantekt á niðurstöðum vísindagreina.
Niðurstöður: Þrátt fyrir að til séu þónokkrar vísindarannsóknir þar sem LTTS er borið saman við hefðbundið TS m.t.t myndsuðs, geislaskammta, aðgreiningu vefja og myndgalla er þörf á frekari rannsóknum. Margar af þeim rannsóknum sem notaðar voru í niðurstöður, sýndu fram á töluverða yfirburði LTTS samanborið við hefðbundið TS. Samt sem áður er ekki hægt að fullyrða um eiginleika tækisins vegna þess hve lítil reynsla er komin á tækið.
Ályktanir: LTTS var tekið í klíníska notkun árið 2021 og er tækið enn í stöðugri þróun. Þó svo að þetta verkefni gefi góða samantekt á þeim vísindarannsóknum sem bera saman LTTS og hefðbundið TS er þörf á frekari rannsóknum. Eiginleikar LTTS lofa góðu og má velta fyrir sér hvort þessi nýja tækni komi til með að yfirtaka TS markaðinn á næstu 10 árum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
diploma-final1.pdf | 640.46 kB | Lokaður til...24.05.2024 | Heildartexti | ||
Skemman_yfirlysing.pdf | 94.63 kB | Lokaður | Yfirlýsing |