is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44502

Titill: 
  • Spurningalisti um miðlæga verkjanæmingu: Áreiðanleiki íslenskrar þýðingar
Námsstig: 
  • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Inngangur: Spurningalisti um miðlæga verkjanæmingu (SMV) (e. Central Sensitization Inventory/CSI) hefur verið þýddur á íslensku og bakþýddur og er í notkun hér á landi. Þessi rannsókn er sú fyrsta á áreiðanleika íslenskrar þýðingar. Áreiðanleikaprófun á íslenskri þýðingu listans er ekki einungis gagnleg fyrir notkun hans við skimun og meðferð heldur einnig fyrir alþjóðlegt samfélag sjúkraþjálfara, til samanburðar á próffræðilegum eiginleikum mælitækisins milli landa. Rannsóknarspurning verkefnisins hljóðar svo: Hver er innri áreiðanleiki og áreiðanleiki endurtekinna mælinga íslenskrar þýðingar á SMV meðal kvenna með greinda endómetríósu eða vefjagigt? Aðferðir: Rannsóknin var próffræðirannsókn á hentugleikaúrtaki þátttakenda (N = 86). Þátttakendur voru konur á aldrinum 25-76 ára, með greinda vefjagigt (n = 50) eða endómetríósu (n = 36). Listinn var lagður fyrir rafrænt með um viku millibili. Reiknað var gildi innri áreiðanleika og áreiðanleika endurtekinna mælinga hjá þeim konum sem svöruðu einu sinni rafrænt (N = 75) og tvisvar (N = 37). Framkvæmd voru T-próf á bakgrunnsbreytum þátttakenda til að sjá hvort munur væri á hópunum. Bakgrunnsbreytur voru eftirfarandi; aldur, fjöldi ára frá greiningu, fjöldi ára frá upphafi einkenna, fjöldi barna og hvort þær væru í sambúð eða ekki. Cronbach alfa var reiknað til að rannsaka innri áreiðanleika. Innanflokksfylgnistuðull (e. Intraclass Correlation Coefficient, ICC) var reiknaður til að varpa ljósi á áreiðanleika endurtekinna mælinga og mælivillu lýst með Bland og Altman myndum.
    Niðurstöður: Tölfræðileg úrvinnsla leiddi í ljós háan innri áreiðanleika þar sem α = 0,824 (endómetríósuhópur = 0,839 ; vefjagigtarhópur = 0,801). Þá kom fram framúrskarandi áreiðanleiki endurtekinna mælinga ICC(2,1) = 0,922 (endómetríósuhópur = 0,963 ; vefjagigtarhópur = 0,881). T- próf óháðra úrtaka og Bland og Altman myndir sýndu að ekki var marktækur og kerfisbundinn munur á fyrri og seinni mælingu. Marktækur munur var á meðalaldri og fjölda barna í hópunum, þar sem þátttakendur í vefjagigtarhópnum voru að meðaltali eldri og áttu fleiri börn. Að öðru leiti var bakgrunnur kvennanna í þessum tveimur hópum sambærilegur.
    Ályktun: Út frá niðurstöðum þessarar rannsóknar má álykta að íslensk þýðing Central Sensitization Inventory sé áreiðanlegt mælitæki til að meta einkenni miðlægrar verkjanæmingar hjá konum með vefjagigt eða endómetríósu. Því er hægt að mæla með áframhaldandi notkun fagaðila á listanum í tilfelli þessara hópa. Spurningalistinn gæti einnig verið góð viðbót fagaðila, til að fylgjast með einkennum einstaklinga með aðra sjúkdóma sem geta borið einkenni miðlægrar verkjanæmingar. Áreiðanleiki er að auki í samræmi við áreiðanleika upprunalegu útgáfunnar.

Samþykkt: 
  • 30.5.2023
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/44502


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistaraverkefnið(lokaútgáfa)-sumar 2023.pdf1,2 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing-1.pdf92,27 kBLokaðurYfirlýsingPDF