Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44598
Rannsóknir benda til að alvarlegir atburðir í æsku geti haft neikvæð áhrif á stýrifærni og leitt til aukinnar tilhneigingar til þunglyndisþanka. Þunglyndisþankar eru passífur hugsunarháttur þar sem einblínt er á orsakir og afleiðingar vanlíðanar og tengist ýmiskonar geðrænum vanda ásamt því að vera áhættuþáttur fyrir þróun þunglyndis. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á tengsl alvarlegra atburða í æsku, skertrar stýrifærni og þátt þeirra í vanabundnum þunglyndisþönkum. Þátttakendur voru 183 úr úrtaki almennings á aldrinum 20-67 ára. Spurningarlistarnir RRS, HINT og CTES voru notaðir til að meta þunglyndisþanka, vanabundna eiginleika neikvæðra sjálfshugsana og áfallasögu. Stýrifærni var metin með þremur taugasálfræðilegum verkefnum. Niðurstöður sýndu að áföll í æsku höfðu tengsl við þunglyndisþanka og vanabundna eiginleika neikvæðra sjálfshugsana en stýrifærni hafði hvorki marktæk tengsl við þessa þætti né áföll í æsku. Þegar þunglyndisþankar og vanabundnir eiginleikar neikvæðra sjálfshugsana voru kannaðir á milli hópa þeirra sem höfðu sögu um að hafa orðið fyrir ofbeldi, fyrir öðrum alvarlegum atburðum eða höfðu enga sögu um alvarlega atburði í æsku, fannst engin marktæk samvirkni á milli áfallahópa og stýrifærni. Þó voru marktæk neikvæð tengsl á milli vinnsluminnis og hugarangurs hjá hópi þeirra sem höfðu orðið fyrir ofbeldi í æsku. Í heildina litið styðja niðurstöður þessarar rannsóknar ekki þá ályktun að vanabundnir eiginleikar þunglyndisþanka séu tilkomnir að hluta vegna skertrar stýrifærni í kjölfar alvarlegra atburða í æsku. Þrátt fyrir að alvarlegir atburðir í æsku hefðu tengsl við vanabundna eiginleika neikvæðra sjálfshugsana og þunglyndisþanka virtist stýrifærni ekki eiga þátt í því sambandi nema að litlu leyti.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS ritgerð_tilbúin.pdf | 438,97 kB | Lokaður til...01.01.2073 | Heildartexti | ||
Yfirlysing_um_meðferð_verkefnis.jpg | 138,56 kB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |