Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/44734
Vanræksla á börnum er einn undirflokkur illrar meðferðar samkvæmt skilgreiningum Alþjóðaheilbrigðisstofnunar og er vandamál á heimsvísu. Á Íslandi er vanræksla algengasta ástæða tilkynninga til barnaverndar. Vanræksla getur haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar á líf barns og því er mikilvægt að grípa hratt inn í aðstæður með ráðgjöf eða meðferð til að beina fjölskyldunni inn á betri braut.
Markmið þessarar rannsóknar var að endurtaka þrjár fyrri íslenskar rannsóknir þar sem aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar og matslistanum Gátlisti fyrir heimilisaðstæður til að meta vanrækslu (CLEAN) var beitt til að bæta aðbúnað á heimilum fjölskyldna. CLEAN matslistinn var hannaður af Project 12-Ways í Bandaríkjunum en hann mælir umfang vanrækslu og metur áhrif inngrips á hlutlægan hátt. Fjölskyldurnar tvær sem unnið var með í þessari rannsókn voru báðar þjónustuþegar hjá stuðningsþjónustunni Keðjunni hjá Reykjavíkurborg og áttu þær sögu um vanrækslu á aðbúnaði barna. Atferlisíhlutun var beitt til að aðstoða fjölskyldurnar við að koma heimilum sínum í ásættanlegt horf er varðar tiltekt og hreinlæti en inngrip fól meðal annars í sér sýnikennslu, leiðbeiningar, ráðgjöf, úthlutun verkefna og markmiðasetningu. Verkefnum var skipt niður í smáar, viðráðanlegar einingar og fjölskyldunum veitt endurgjöf á frammistöðu auk jákvæðrar styrkingar fyrir að ná settum markmiðum. Margfalt grunnskeiðssnið milli herbergja var notað til að mæla árangur inngripsins. CLEAN matslistinn var notaður til að mæla ástand heimilanna allt rannsóknartímabilið en með honum var hægt að leggja hlutlægt mat á hvort framfarir urðu hjá fjölskyldunum með inngripinu.
Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna aftur að með notkun CLEAN matslistans og aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar er hægt að kenna fjölskyldum nýja færni ásamt því að styrkja þá færni sem þegar var til staðar. Hreinlæti og tiltekt jókst á báðum heimilum, árangur var mælanlegur og viðhélst vel yfir allt rannsóknartímabilið. Jafnframt sýndi mat á félagslegu réttmæti að báðum fjölskyldum fannst inngrip rannsóknar mjög gagnlegt og hafði inngrip jákvæð áhrif á líðan allra fjölskyldumeðlima.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
MEISTARAVERKEFNI - Auður Ögmundar.pdf | 1,45 MB | Locked Until...2100/06/01 | Complete Text | ||
Skemman_yfirlysing.pdf | 41,36 kB | Locked | Declaration of Access |