Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/4474
Notkun endurtekinna þyngdar- og landhæðarmælinga til að meta áhrif vinnslu á jarðhitakerfi
Áhrif vinnslu á jarðhitakerfi má meta með endurteknum þyngdar- og landhæðarmælingum á áhrifasvæði jarðhitakerfis á yfirborði jarðar. Vinnsla heits vatns og gufu úr jarðhita¬kerfum veldur breytingum á þyngdarsviði jarðar sem og landhæð. Séu mæld þyngdarfrávik leiðrétt fyrir landhæðarbreytingum má nota niðurstöðurnar til að meta massa¬breytingar með aðferð Gauss. Þessari aðferð hefur verið beitt á jarðhitasvæðum víða um heim, og eru hér tekin til umfjöllunar dæmi frá Wairakei á Nýja-Sjálandi og Hatchobaru í Japan. Niðurstöður þaðan benda til þess að áhrif vinnslu séu nánast fullkomlega afturkræf, þ.e. að nánast allur massi sem unnin er úr jarðhitakerfunum skili sér aftur í kerfin með náttúrulegum hætti. Þyngdarbreytingar fyrir jarðhitasvæðið í Kröflu eru skoðaðar og bornar saman við massavinnslu úr jarðhitakerfinu, en þar má telja næsta öruggt að mældar þyngdarbreytingar stafi af hvoru tveggja, vinnslu úr jarðhitakerfinu og breytingum í grunnstæðu kvikuhólfi Kröflu. Ómögulegt er því að meta bein áhrif vinnslu á jarðhita¬kerfið í Kröflu með aðferð Gauss. Niðurstöður fyrir jarðhitakerfið í Svartsengi 1999-2008 eru hér kynntar. Áætlaðar massabreytingar í Svartsengi árin 1999-2004 benda til þess að um 60% endurnýjun massa hafi átt sér stað, ef miðað er við hreina (nettó) meðalvinnslu. Þetta er sama hlutfall og áætlað er fyrir tímabilið 1975-1999. Áhrif vinnslu á jarðhitakerfið í Svartsengi koma hins vegar ekki jafn skýrt fram í niðurstöðum mælinga árin 2004-2008, svo ekki er mögulegt að meta bein áhrif vinnslu í Svartsengi á því tímabili.
| Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
|---|---|---|---|---|---|
| BS_eag_loka_fixed.pdf | 2,06 MB | Open | Heildartexti | View/Open |