Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44809
Nú til dags er andleg heilsa og vellíðan mikið í umræðunni ásamt mikilvægi þess að stunda hreyfingu og útiveru. Talað er um hvaða næring sé best, mismunandi aðferðir til að öðlast innri frið t.d. með hugleiðslu eða öðrum aðferðum og að hreyfing sé af hinu góða. Lögð er áhersla á hreyfingu hjá börnum og fullorðnum og mikilvægi útiveru.
Útivistarsvæði verða þá að vera aðgengileg og í boði fyrir alla, allt frá börnum í leikskólum að öldruðum á dvalarheimilum og aðgengið að þeim verður að vera gott og notendavænt. Ekki er nægileg umræða um mikilvægi grænna svæða þegar kemur að hjúkrunarheimilum, dvalarheimilum, meðferðarstofnunum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Þá vantar meiri umræðu
um hversu mikilvægur liður það er í bataferli hina sjúku og allra þeirra sem glíma við andleg eða líkamleg veikindi af einhverskonar toga að hafa aðgengi að slíkum stöðum.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að útivera og hönnun útisvæða skipta miklu máli hvað varðar andlega og líkamlega líðan og skynjun fólks sem dvelur í þeim. Náttúrulegt umhverfi hefur jákvæð áhrif á vellíðan og skiptir þá umgjörðin miklu máli. Þeir sem sjá um að skipuleggja og hanna þessi svæði eru ekki eingöngu að hanna byggðarsvæði heldur eru þeir einnig að hanna dvalarsvæði sem eiga að ýta undir vellíðan, öryggistilfinngu hjá þeim sem að þar dvelja og styðja við andlega og líkamlega heilsu þeirra. Sýnt hefur verið fram á það að fólk kjósi frekar útisvæði með gróðri og trjám heldur en ella og að það hafi jákvæð áhrif á stress, álag, þunglyndi og depurð og að fólk nái sálfræðilegri endurheimt þegar þau dvelja í grænum svæðum. Slík svæði bjóði upp á að hægt sé að hlaða batteríin sín og endurnærast á sál og líkama. Græn svæði eru því mikilvægur liður þegar kemur að andlegri og líkamlegri heilsu fólks. Hvernig þessi svæði eru nýtt segja einnig heilmargt um góða eða slæma hönnun.
Þegar fólk er komið á sín efri ár er algengt að það dvelji hjúkrunarheimili eða dvalarheimili. Þar þurfa þessir einstaklingar að kynnast nýju umhverfi. Venjast nýju heimili og nýjum einstaklingum. Kynnast starfsfólki og fylgja ákveðnum reglum og verkferlum. Þetta getur
reynst strembið og mikil lífsraun fyrir margt fólk að yfirgefa og flytja burt úr sínu ástkæra heimili. Heimili sem þau hafa mögulega búið í alla tíð. Til þess að þessar stofnannir séu ekki bara kuldalegar og óhuggulegar byggingar sem minna á spítala er hægt að gera heillmargt til að gera þessa staði ákjósanlegri og notalegrri til að búa á. T.d. bjóða upp á fallegt útsýni út úr herbergjum. Að hafa tré, runna og annan gróður, eins og flöktandi laufblöð þegar horft er útum gluggann eða fagurt blómabeð, getur haft jákvæð áhrif á upplifun okkar. Hvort það séu fagrar sjónlínur eins og fjallasýn eða útsýni yfir hafið geta útsýni skapað ákveðna öryggistillfinningu og jarðtengingu þegar fólk upplifir að horfa á náttúruna. Einnig er mikilvægt að hafa aðgengi að grænu svæði eins og garði, þar sem fólk getur notið þess að vera úti. Aldrað fólk sækist í útiveru og hefur gott af henni þess vegna þjóna garðar hér mikilvægum tilgangi.
Höfundur mun í þessu verkefni beina sjónum sínum á hóp aldraðs fólks og hverjar þarfir þeirra séu þegar kemur að því að hanna garð og útisvæði. Aldraðir glíma oft við einhverskonar hrörnunarsjúkdóma eða veikindi og hefur verið sýnt fram á ávinning þess að dvelja í grænum svæðum og að vera í nálægð við náttúruna til þess að veita þeim hugar- og sálarró og ýta undir bata í einhverjum tilfellum. Höfundur mun fjalla um mátt náttúrunnar og heilandi kraft hennar og rýna í umhverfissálfræði þar sem tengsl umhverfis og fólks er skoðað.
Dvalarheimilið á Kópaskeri er lítið dvalarheimili sem er opið á daginn. Þar hefur fólk tækifæri að dvelja og hitta aðra, spjalla, spila, prjóna, lesa og fleira og sitja úti við ef vel viðrar. Lóðin hefur mikið upp á að bjóða, hún er í sæmilegri stærð og umlykur allar hliðar dvalarheimilisins.
Fagurt landslag með góðu útsýni yfir hafið til vesturs og fjallasýn í norður og austur. Lóðin býður upp á góða aðstöðu til útiveru og hægt er að ganga út á fjöru á örfáum mínútum. Engar nálægar byggingar varpa skugga á lóðina í núverandi mynd. Markmið þessa verkefnis er að skoða hvernig hægt sé að hanna heilandi garð við dvalarheimilið í Kópaskeri. Hönnunarforsendur eru unnar út frá greiningavinnu svæðisins og niðurstöðum gagna. Hönnunartillagan byggist upp á að innleiða áhrif heilandi garða sem mögulegan hluta af meðferðarúrræði, þ.e.a.s. til að bæta andlega og líkamlegan líðan þeirra sem á dvalarheimilinu
dvelja. Leitast er við að skapa aðstæður sem bjóða fólki upp á tilbreytingu við að dvelja innnanhúss og að upplifa heilandi og endurnærandi áhrif og mátt sem náttúran veitir. Að veita fólki hugarró og vellíðan með því að vera í nálægð við náttúruna og mögulega taka þátt í garðyrkju. Mín von er að allir geti haft aðgang að heilandi görðum sem á sjúkrastofnunum dvelja, burt séð frá líkamlegu eða andlegu ástandi þess.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS_ritgerð.1.mai_Anna Lalla.pdf | 20,7 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |