Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44812
Frásagnir flétta saman setningar um persónur, tilfinningar, aðgerðir, umhverfissamhengi og útkomu. Börn nota frásagnir til að greina frá atburðum, mynda vinasambönd, og tjá tilfinningar sínar og hugsanir. Frásagnarfærni barna tengist lesskilningi sterkum böndum og er mikilvæg færni sem þarf að fylgjast með og hlúa að. Hingað til hefur skort mælitæki á íslensku sem meta frásagnarfærni barna á heildstæðan og markvissan hátt. Markmið rannsóknarinnar var að meta próffræðilega eiginleika íslenskrar þýðingar á Narrative language measurement (NLM) matshluta CUBED mælitækisins, sem metur frásagnir barna á leikskólaaldri með endurfrásögn sögu, persónufrásögn og hlustunarskilningi. Þátttakendur voru 31 barn, 58 til 73 mánaða (13 stúlkur, 18 drengir). Þýddar voru fjórar sögur og matskvarðar. Hver fyrirlögn samanstóð af einni sögu til endurfrásagnar, annarri fyrir hlustunarskilning og einni persónufrásögn. Lagt var mat á stöðugleika fyrirlagna yfir tíma, innri stöðugleika hvers prófþáttar og áreiðanleika matsmanna og hvernig hægt sé að fá sem bestan áreiðanleika út frá fjölda matsmanna og fjölda verkefna. Niðurstöður sýndu ómarktækan mun milli fyrirlagna fyrir persónufrásögn og hlustunarskilning en marktækan fyrir endursögn sögu, sem bendir til þjálfunaráhrifa. Stöðugleiki kvarða reyndist ásættanlegur nema hlustunarskilningur, þar sem endurskoða þarf hluta matskvarðans. Greining á styrk áhrifsþátta benti til að breytileiki einstaklinga hafi einna mest áhrif á mælingar. Greining á áhrifum matsmanna sýndi aukna hættu á að þeir meti hlustunarskilning með ólíkum hætti miðað við endursögn sögu. Að lokum benti hönnunargreining til að betri áreiðanleiki fáist séu matsmenn tveir og verkefni þrjú til fimm. Áreiðanleiki þýðingar er ásættanlegur að mörgu leyti en ljóst er að bæta þarf úr ýmsum annmörkum hennar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð lokaútgáfa.pdf | 2.14 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing fyrir skemmu.pdf | 692.51 kB | Lokaður | Yfirlýsing |