is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/44814

Titill: 
 • Endurtekningarhæfni mælinga á lifrarfitu með segulómun
Námsstig: 
 • Diplóma meistara
Útdráttur: 
 • Inngangur: Fitulifur sem skýrist ekki af áfengisnotkun (e. Non Alcoholic Fatty Liver Disease (NAFLD)) er lifrarsjúkdómur sem skilgreindur er þar sem fitumagn í lifur er meira en 5% af heildarþyngd lifrar. Algengi NAFLD á heimsvísu er 25% og fer ört hækkandi. Áhættuþættir NAFLD eru offita, sykursýki af týpu 2 og efnaskiptasjúkdómar. Helstu myndgreiningarrannsóknir sem hægt er að greina NAFLD með eru ómun, tölvusneiðmynd og segulómun, ásamt blóðprufum og sýnatökum. Sidekick er íslenskt heilbrigðistæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum á lífstílssjúkdómum og stendur nú fyrir rannsókn á NAFLD. Þátttakendur í þeirri rannsókn koma oftar en einu sinni í segulómunarrannsókn af lifur og er því mikilvægt að mæla endurtekningarhæfni mælinga til að átta sig á nákvæmni mælinganna og einnig þar sem segulómunartæki Myndgreiningar Hjartaverndar var uppfært á rannsóknartímabilinu.
  Markmið: Markmið rannsóknar er að kanna breytileika mælinga á hlutfalli lifrarfitu og endurtekningarhæfni slíkra mælinga með segulómun. Einnig að kanna hvort munur væri á mælingum á milli eldri gerðar segulómtækis og nýs tækis Myndgreiningar Hjartaverndar.
  Efni og aðferðir: Þátttakendur rannsóknarinnar var úrtak sjálfboðaliða og samanstóð af 25 einstaklingum. Þátttakendur komu tvisvar sinnum í segulómunarrannsókn hjá Myndgreiningu Hjartaverndar þar sem tvær mælingar voru gerðar í hvorri heimsókn. Í fyrri heimsókn var notast við segulómunartæki af gerð GE Signa Twinspeed v16.0, 1.5 Tesla og í seinni heimsókn var notast við gerð GE Signa Explorer v29.1 AirRecon DL. Notuð var gradient echo (GRE) myndaröð með 12 mismunandi bergmálstímum í gegnum alla lifur. Forritið MRQuantif (útgáfa 2022.09.16) var notað við úrvinnslu mynda. Mælt var hlutfall lifrarfitu með þriggja punkta Dixon aðferð (e. Proton Density Fat Fraction (PDFF)) út frá staðsetningu áhugasvæða á samsvarandi sneiðum sem sýna lifur og milta vel í axial plani. Reiknað var meðaltal og staðalfrávik, bæði milli og innan mælinga. Parað t-próf var gert til að meta hvort marktækur munur væri á milli mælinga í hvorri heimsókn. Fylgnipróf var gert til að meta fylgni innan og milli tækja. Línuleg aðhvarfsgreining með leiðréttingu fyrir mögulegri þyngdarbreytingu á milli heimsókna var notuð til að kanna mögulega tölfræðilega marktækan mun á milli tækja. Loks var reiknaður breytileikastuðull fyrir hvort tæki fyrir sig.
  Niðurstöður: Niðurstöður paraðs t-prófs var að ekki reyndist marktækur munur á mælingum á Signa Twinspeed (p- gildi = 0,69) né á mælingum á Signa Explorer (p-gildi = 0,98). Það var há fylgni milli mælinga á bæði Signa Twinspeed (r = 0,99) og á Signa Explorer (r = 0,99). Einnig var há fylgni milli tækja (r = 0,98). Leiðrétt var fyrir mögulegri þyngdarbreytingu milli heimsókna og sýndu niðurstöður línulegrar aðhvarfsgreiningar að ekki reyndist marktækur munur á mælingum eftir leiðréttingu (p-gildi = 0,09). Breytileikastuðull fyrir mælingar á Signa Twinspeed var 5,4% og 5,3% fyrir Signa Explorer.
  Ályktanir: Rannsóknin sýndi fram á að endurtekningarhæfni segulómunar við mælingar á magni fitu í lifur sé góð. Ekki reyndist marktækur munur í mælingum á hlutfalli fitu í lifur á milli tækja né innan hvors tækis fyrir sig. Þar af leiðandi þarf ekki að leiðrétta fyrir breytingu á fitumagni í lifur milli tækja.

Samþykkt: 
 • 8.6.2023
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/44814


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
NAFLD_Lokaútgáfa_GOA.pdf3.83 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing.pdf298.58 kBLokaðurYfirlýsingPDF