Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4519
Rannsóknin var gerð árin 1996–1998 og var megintilgangurinn að skoða hversu
aðgengileg vísindarit voru raunvísindamönnum á nokkrum íslenskum rannsóknarstofnunum
og hvernig þeir fylgdust með á sérsviði sínu. Rannsóknin var þríþætt og var
beitt bæði megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum. Þær fyrrnefndu fólust í
greiningu tilvitnana og könnun meðal vísindamannanna og hinar síðarnefndu í opnum
viðtölum við þá. Með tilvitnanagreiningu var skoðuð staðsetning heimilda sem starfsmenn á fimm rannsóknarstofnunum á sviði raunvísinda í Reykjavík vitnuðu til árin 1994 og 1995. Leiddi hún í ljós að 83% þeirra íslensku ritverka sem vitnað var í fundust
á bókasöfnum stofnananna en tæp 65% erlendu ritverkanna. Hægt var að fá um 97%
greina í erlendum fagtímaritum sem vitnað var í á viðkomandi bókasöfnum eða útvega
þær frá öðrum söfnum á Íslandi eða á hinum Norðurlöndunum. Stutt spurningakönnun
um heimildir, sem send var 85 vísindamönnum (21 konu og 64 körlum) á sömu rannsóknarstofnunum, leiddi í ljós að flestar tilvitnanir höfðu menn fundið í
heimildalistum og næstflestar höfðu félagar bent þeim á. Frá félögum fékk fólk einnig
mikið af þeim ritum sem það vitnaði til en meirihlutinn fékkst á bókasafni stofnunar eða
í millisafnaláni. Í opnum viðtölum við 15 raunvísindamenn (5 konur og 10 karla) á níu
stofnunum kom fram að sambönd við aðra vísindamenn, vinna í innlendum og erlendum
teymum og ráðstefnur væru mikilvægustu þættirnir í að fylgjast með í faginu, auk þess að fylgjast reglulega með efni 2–11 tímarita sem flestir gerðu. Sumir treystu eingöngu á félaga en aðrir notuðu fjölbreyttar aðferðir. Meginniðurstöður voru þær að ritakostur ásöfnum stofnananna svaraði þörfum vísindamannanna nokkuð vel, þótt það væri misjafnt eftir stofnunum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA_GP_ritgerd_fixed.pdf | 1,28 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |