is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/45527

Titill: 
  • Ofbeldi þjónustunotenda í garð starfsfólks á íbúðakjörnum í þjónustuflokki IV : mat á viðbrögðum Reykjavíkurborgar
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð verður fjallað um hvernig íbúðakjarnar í þjónustuflokki IV á vegum Reykjavíkurborgar takast á við ofbeldi þjónustunotenda í garð starfsfólks. Skoðað verður hvar styrkleikar verklags liggja og hvað er ábótavant. Störf höfunda á þessu sviði hjá Reykjavíkurborg vöktu áhuga á að rannsaka þennan málaflokk með það að markmiði að bæta lífskjör þjónustunotenda og vinnuumhverfi starfsfólks með betri viðbrögðum og fyrirbyggjandi aðgerðum við ofbeldi. Ofbeldi þjónustunotenda í garð starfsfólks er staðreynd innan íbúðakjarna í þjónustuflokki IV á vegum Reykjavíkurborgar. Atvikin geta verið af ólíkum toga og eiga sér fjölmargar ástæður og uppruna. Afleiðingar ofbeldisins geta verið allt frá minni háttar andlegum skaða eða líkamlegu tjóni yfir í varanlega örorku að hluta eða að fullu. Þörf er á umræðu, bættum verkferlum, bættri þjálfun og meiri fræðslu til þess að fyrirbyggja að slík atvik eigi sér stað og einnig til þess að bregðast rétt við atvikunum þegar það á við en atvikin geta leitt af sér kulnun og aukna manneklu sem bitnar á gæðum þjónustunnar.
    Markmiðið er að greina verkferla tengda ofbeldi sem starfsfólk verður fyrir á íbúðakjörnum í þjónustuflokki IV, rýna til gangs og auka gegnsæi. Í rannsókninni verður skoðað hvaða fræðslu og þjálfun starfsfólk hlýtur og mat lagt á hvort það sem kennt er nýtist í atvikum tengdum ofbeldi og hvort þörf sé á endurbótum. Erlend fræðsla og þjálfun sem gæti nýst starfsfólki íbúðakjarna verður skoðuð og einnig rannsóknir sem gerðar hafa verið í tengslum við ofbeldi þjónustunotenda í garð starfsfólks, handleiðslu fyrir starfsfólk og ástæðurnar sem liggja að baki ofbeldishegðunar. Rannsóknir sýna að strangur rammi, samskiptaörðugleikar og það að sjálfræði einstaklingsins sé hunsað auki líkurnar á ofbeldishegðun. Ofbeldi getur einnig leitt af sér aukna valdbeitingu og nauðung og áhersla verður lögð á aðferðir sem miða að því að komið verði í veg fyrir nauðung og þvingun eins og kostur er, sem og annars konar inngrip í friðhelgi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins. Í því samhengi verða fyrirbyggjandi aðgerðir skoðaðar en að efla öryggi og færni starfsfólks þegar kemur að ofbeldisatvikum er mikilvægt bæði fyrir þjónustunotendur og þjónustuveitendur. Leitast verður við að varpa ljósi á þörfina á faglegri nálgun hvað varðar ofbeldisatvik, skilvirkari þjálfun og símenntun starfsfólks með öryggi allra að leiðarljósi. Horft verður til tengsla á milli þátta eins og alvarlegra ofbeldisatvika í garð starfsfólks, beitingu nauðungar, þjálfunar og fræðslu, sjálfræðis og starfsmannaveltu en höfundar telja að mögulegt sé að auka lífsgæði fatlaðs fólks sem býr í búsetuþjónustu með því að fækka alvarlegum ofbeldisatvikum.
    Niðurstöður okkar benda til þess að með því fræða og þjálfa starfsfólks í viðeigandi viðbrögðum og fyrirbyggjandi aðgerðum gegn ofbeldi leiðir það til fækkunar á ofbeldisatvikum og minnki starfsmannaveltu. Með því að nýta þekkingu og reynslu tengdra þjónustukerfa væri hægt að skoða hvaða þjálfun og fræðsla nýtist vel til þess að koma í veg fyrir ofbeldisatvik á íbúðakjörnum í þjónustuflokki IV. Allir viðmælendur voru sammála um mikilvægi þess að starfsfólk þeirra fengi þjálfun í beitingu á viðeigandi aðferðum við beitingu líkamlegrar nauðungar. Í dag er hins vegar tíðni þjálfunar óregluleg og valfrjáls og því væri hægt að stuðla að fækkun ofbeldisatvika með því að bjóða upp á heildrænan fræðslupakka fyrir nýtt starfsfólk sem myndi ná til flestra atriða sem felast í starfi á íbúðakjarna í þjónustuflokki IV. Leiða mætti líkum að því að fækka megi ofbeldisatvikum með því að innleiða þjálfunaráætlun á íbúðakjörnum í þjónustuflokki IV, svo sem „Staying Safe“ þjálfunaráætlunin eða „Non Crisis Intervention“ þjálfunaráætlunin.
    Lykilorð: ofbeldi, ofbeldisatvik, nauðung, þvingun, fatlað fólk, þjónustunotendur, starfsfólk, íbúðakjarnar, öryggi, valdaójafnvægi, stuðningsþjónusta, sjálfræði

Samþykkt: 
  • 6.7.2023
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/45527


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ofbeldi þjónustunotenda í garð starfsfólks á íbúðakjörnum í þjónustuflokki IV Mat á viðbrögðum Reykjavíkurborgar Bjarki og Halldór BA Maí 2023 Skil.pdf615,93 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
skemman_yfirlysing_Ba Bjarki Halldor 2023.jpg111,91 kBLokaðurYfirlýsingJPG