Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/45581
Í þessari rannsóknarritgerð er menntastefna íslenskra tónlistarskóla rannsökuð, sérstaklega með tilliti til einkakennslu sem virðist enn vera ráðandi form tónlistarkennslu á landinu. Útgefið efni frá íslenskum tónlistarskólum og stjórnvöldum um málefni tónlistarkennslu eru borin saman við niðurstöður íslenskra og erlendra rannsókna til að staðsetja umræddar stofnanir innan almennrar menntastefnu á Íslandi. Íslensk menntastefna gerir ráð fyrir því að félagslegt réttlæti sé í fyrirrúmi í öllu skólastarfi og velferð nemenda er megináhersla mennta- og barnamálaráðuneytis. Vegna nýlegrar umræðu sem bendir til þess að þvert á áherslur stjórnvalda sé félagslegu réttlæti ábótavant í tónlistarkennslu þótti mikilvægt að leita svara við spurningunni um hvernig þessar stofnanir skipuleggi störf sín og hvort þau samræmist áherslu stjórnvalda á félagslegt réttlæti. Ritrýnd skrif sem lýsa störfum og skipulagi tónlistarskóla, stefna stjórnvalda og rannsóknir á tónlistarmenntun frá Íslandi og Norðurlöndunum voru greind út frá gagnrýnu sjónarhorni Bourdieu og Gramsci til þess að varpa ljósi á þau svæði þar sem úrbóta gæti verið þörf. Niðurstöður eru þær að stefna íslenskra tónlistarskóla sé að stóru leyti í mótsögn við áherslu stjórnvalda á félagslegt réttlæti en að velferð nemenda hvíli þá oft persónulega á herðum sumra tónlistarkennara. Þessar niðurstöður varpa ljósi á það hvar frekari rannsókna og úrbóta sé þörf til að tryggja að fullu réttindi íslenskra tónlistarnema.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Egill_Final.pdf | 337,15 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
skemman_yfirlysing_-2.pdf | 98,75 kB | Lokaður | Yfirlýsing |