is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4569

Titill: 
 • Sjálfsmat og nýting þess við skólaþróun : viðhorf starfsmanna
Námsstig: 
 • Meistara
Höfundur: 
Útdráttur: 
 • Í þessu meistaraprófsverkefni er leitast við að greina hvaða þættir við
  innleiðingu og framkvæmd lögbundins sjálfsmats hafa helst áhrif á
  viðhorf starfsmanna í fjórum skólum til gagnsemi slíks mats við að bæta
  skólastarf og nýta það til skólaþróunar. Verkefnið er 50 ECTS einingar.
  Kveikjan að rannsókninni var ekki síst sú að viðhorf skólamanna til
  lögbundins sjálfsmats virtist vera allt frá því að það væri fyrst og fremst
  íþyngjandi, gagnslítil skriffinnska til þess að vera gagnlegt og það nýtt á
  markvissan hátt sem verkfæri við skólaþróun. Viðhorfin virtust heldur
  ekki endurspegla hversu langt sjálfsmatið væri komið í skólunum
  samkvæmt úttektum hins opinbera. Það hafði ekki verið rannsakað
  sérstaklega hér á landi hvort samband væri milli þess hversu vel á veg
  innleiðingin væri komin og viðhorfa til gagnsemi sjálfsmatsins.
  Rannsóknaraðferðin er eigindleg og framsetning niðurstaðna nokkuð
  nýstárleg. Dregin er upp mynd af skólunum og megininntak viðtala birt í
  frásagnarstíl. Í framhaldi af því eru greind meginþemu sem virtust vera
  líklegir áhrifavaldar við mótun viðhorfa til sjálfsmats í hverjum skóla
  fyrir sig. Mikilvægi rannsóknarinnar felst einkum í því að niðurstöðurnar
  geti orðið vegvísir við innleiðingu mats á skólastarfi þannig að það verði
  litið jákvæðum augum og gagnist til skólaþróunar.
  Helstu niðurstöður eru þær að í skólunum þar sem neikvætt viðhorf
  var til sjálfsmats var enginn leiðtogi á því sviði og engin hvatning. Í
  öðrum skólanum hafði skólasamfélagið með skólastjóra í broddi
  fylkingar sameinast í eindregnu neikvæðu viðhorfi til sjálfsmats. Í báðum
  neikvæðu skólunum var sjálfsmatið unnið í einangrun, án þátttöku
  starfsmanna, af einum aðila að því er virtist fyrst og fremst af ytri kvöð til
  að uppfylla lög. Í skólunum þar sem viðhorfið var jákvætt og álitið
  gagnlegt til skólaþróunar voru ákveðin atriði sameiginleg. Þar var sterk
  forysta í sjálfsmatsferlinu, mikil hvatning og skólastjórinn var leiðtogi í
  sjálfsmati skólans. Sjálfsmatið var þátttökumiðað og kveikjan að því
  sprottin úr skólasamfélaginu. Það var innleitt í litlum skrefum án þess að
  íþyngja starfsfólki. Við innleiðingu sjálfsmatsins hafði skólastjórinn
  forðast að leggja áherslu á ytri kvaðir og reynt að skapa þörf og áhuga
  meðal starfsmanna þannig að framkvæmdin yrði af innri hvöt. Það hafði
  tekist að tekist að innlima í skólamenninguna jákvætt viðhorf til
  sjálfsmats, það var sameign skólasamfélagsins og samstaða ríkti um
  6
  mikilvægi þess. Ekki er hægt að fullyrða neitt um orsakasamband milli
  þessara sameiginlegu atriða og viðhorfa starfsmanna. Þó er ekki
  ósennilegt að sum þessara atriða skipti máli og vert sé að huga að þeim ef
  markmiðið er að innleiða sjálfsmat þannig að starfsmenn verði jákvæðir
  og fúsir að nýta það til skólaþróunar.

Samþykkt: 
 • 23.3.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/4569


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sjálfsmat og nýting þess við skólaþróun-Valdimar-Meistaraverkefni.pdf638.52 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna