Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46
Skert skynúrvinnsla hefur áhrif á þroska ungra barna og dregur úr færni þeirra í daglegu lífi. Á Íslandi er ekkert matstæki í notkun sem metur slíka þætti hjá ungum börnum en Infant/Toddler Sensory Profile er staðlað matstæki sem gefur mynd af áhrifum skynúrvinnslu á færni 0-3ja ára barna í daglegu lífi. Um er að ræða tvo spurningalista, sem foreldrar fylla út með því að skrá tíðni hegðunar, annarsvegar fyrir 0-6 mánaða og hinsvegar fyrir 7-36 mánaða gömul börn. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna frammistöðu íslenskra barna frá fæðingu til þriggja ára aldurs á einstökum þáttum matstækisins Infant/Toddler Sensory Profile í íslenskri þýðingu og bera saman við bandaríska staðla. Innri áreiðanleiki matstækisins var einnig skoðaður til að kanna frekar notagildi íslensku þýðingarinnar. Upplýsingum var safnað með því að leggja matstækið fyrir foreldra 108 barna á Akureyri. Úrtakið fékkst með aðstoð frá Heilsugæslustöðinni á Akureyri, átta dagmæðrum og leikskólunum Lundarseli og Naustatjörn, svörun var 85%. Notast var við aðferðafræðilegt rannsóknarsnið sem flokkast undir lýsandi megindlega rannsóknaraðferð. Meðaltalsframmistaða íslenskra barna var skoðuð með hliðsjón af samantektareyðublaði matstækisins og kom í ljós að nær allir aldurshópar féllu innan dæmigerðrar hegðunar. Á heildina litið var spönn íslensku barnanna þó víðari en dæmigerð hegðun segir til um. Niðurstöður marktækniprófs sýndu í nokkrum tilvikum mun á meðaltalsframmistöðu íslenskra barna samanborið við staðla fyrir bandarísk börn. Þessar niðurstöður endurspegla að ekki er hægt að notast við bandaríska staðla og því nauðsynlegt að staðla matstækið að íslenskum aðstæðum áður en það er tekið í notkun hér á landi. Mikilvægt er að taka mið af því að lítið úrtak og skert svarhlutfall gætu hafa haft áhrif á niðurstöðurnar. Innri áreiðanleiki íslensku þýðingarinnar sýndi veika einsleitni samkvæmt alfastuðli og uppfyllir því ekki kröfur sem gerðar eru til staðlaðra matstækja. Þess ber þó að geta að innri áreiðanleiki bandarísku útgáfunnar er einnig lágur og því er óraunhæft að gera kröfur á góðan innri áreiðanleika íslensku þýðingarinnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
matstækið Infant-toddler.pdf | 10.41 MB | Takmarkaður | Ritgerð | ||
matstækið Infant-utdrattur.pdf | 34.71 kB | Opinn | Útdráttur | Skoða/Opna |