Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46017
Í þessari ritgerð er sjónum beint að skáldsögunni Stóra bróður (2022) eftir Skúla Sigurðsson. Í ritgerðinni verður leitast við að greina ákveðin atriði í stíl sögunnar sem tengjast persónusköpun og sjónarhorni. Áhersla er lögð á stílbrögðin kynhlutlaust mál, fjölvísanir og dýralíkingar sem í skáldsögunni eru öll notuð til að vísa til fólks. Áhrifin sem stílbrögðin hafa á upplifun lesanda af persónunum séra Ófeigi og kokknum Halldóru eru könnuð sérstaklega.
Kyni kokksins Halldóru er leynt framan af sögunni með því að nota engin kyngreinandi orð um hana. Höfundur nýtir alls kyns aðferðir til að fá lesanda til að gera ráð fyrir því að persónan sé karl, t.d. er persónan ofbeldisfull, karlmannleg í útliti og vísað er til hennar með nafnliðnum kokkurinn. Kyn Halldóru kemur svo smám saman í ljós í 57. kafla og fortíðarkafla sem kemur í kjölfarið, merktur 1993, þar sem vísbendingar um kyn hennar eru áberandi. Afhjúpunin á kyni persónunnar gerir það að verkum að lesandi neyðist til að horfast í augu við staðalhugmyndir sínar um hlutverk og eðli kynjanna og markar hún eins konar opinberun á persónunni. Í kjölfar afhjúpunarinnar á kyni Halldóru verður áberandi breyting á stíl þar sem nafn hennar, kynbeygð persónufornöfn og lýsingarorð eru notuð óspart.
Fjölvísanir, þ.e. þegar vísað er til sömu persónu með mismunandi heitum, eða nafnliðum (t.d. Ófeigur, séra Ófeigur, hann, þessi maður) eru áberandi í Stóra bróður. Þær eru notaðar markvisst til þess að tjá viðhorf til sögupersóna, undirstrika stöðu fólks í samfélaginu eða koma á framfæri ákveðnum þemum. Fjölvísanir eru sérstaklega áberandi yfir séra Ófeig þar sem ýmis heiti yfir hann hafa stílfræðilega þýðingu og eru notuð markvisst. Starfstitill séra Ófeigs, prestur, virðist vera notaður vísvitandi til að undirstrika stöðu séra Ófeigs í samfélaginu og koma á framfæri ákveðnum þemum. Fullt nafn séra Ófeigs hefur einnig stílfræðilega þýðingu, en merking þess hefur tengsl við söguþráðinn og er notað í fyrsta skipti þegar persónan er afhjúpuð.
Dýralíkingar eru, eins og fjölvísanirnar, notaðar til þess að tjá viðhorf ákveðinnar persónu til þess einstaklings eða hóps sem líkt er við dýr. Dýralíkingarnar eru einkum notaðar yfir séra Ófeig og Halldóru, bæði til þess að tjá viðhorf Stóra bróður til þeirra en einnig til þess að gera þau ómannleg fyrir lesanda.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð Stóri bróðir AS.pdf | 575.36 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_AS.pdf | 320.69 kB | Lokaður | Yfirlýsing |