is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/46089

Titill: 
  • Hlutverk endurskoðenda. Er væntingagap til staðar varðandi hlutverk endurskoðenda?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð er fjallað almennt um endurskoðun og hlutverk endurskoðenda. Rannsóknarspurningin hljóðar svona: „Er væntingagap til staðar varðandi hlutverk endurskoðenda?“ og er farið yfir hvað væntingagap þýðir, hvort það er til staðar í endurskoðun og ef svo er, hver áhrifin eru og mögulegar úrlausnir. Þegar um væntingagap er að ræða er verið að útskýra mismuninn á því hver vinna endurskoðenda er og hvers vænst er af þeim, þ.e. hvað endurskoðendur gera á móti því sem þeir eru taldir gera. Endurskoðun er ákveðin aðferð eða ferli til að yfirfara reikningsskil hjá félögum með þeim tilgangi að mynda skoðun og álit á þeim. Hún er framkvæmd af þeim sem hafa til þess réttindi, eru faglega hæfir og hafa enga tengingu við það félag sem er verið að endurskoða til að auka trúverðugleika og gagnsemi upplýsinganna. Markmið endurskoðunar er að gefa hlutlaust og faglegt álit á reikningsskilum félaga með því að skoða hvort nægjanleg endurskoðunargögn séu til staðar og styðji þær upplýsingar sem fram koma í ársreikningi. Endurskoðendur sinna fleiri verkefnum heldur en að endurskoða reikningsskil. Dæmi um þau eru aðstoð við gerð ársreikninga, yfirferð árshlutareikninga, gerð skattframtala, innri endurskoðun og yfirferð og vottun á innra eftirliti.
    Endurskoðunarferlið skiptist í fjóra liði, samþykki og samkomulag um ráðningu, skipulagningu endurskoðunar, framkvæmd endurskoðunar og lok endurskoðunar. Endurskoðunarferlið leiðbeinir endurskoðendum skref fyrir skref í gegnum allar þær aðgerðir sem þarf að ljúka við endurskoðun á félagi. Áritun endurskoðenda, sem er lokaskrefið í endurskoðunarferlinu, inniheldur álit endurskoðandans og ítarlegar upplýsingar um endurskoðunina. Áritun endurskoðunar er ábyrgðarmikið verkefni og þurfa endurskoðendur því að gefa frá sér viðeigandi álit. Álit er sett fram í áritun á ársreikningi og í endurskoðunarskýrslu til stjórnar. Það eru til nokkrar tegundir áritana og í þessari ritgerð er farið yfir þær fjórar helstu sem eru fyrirvaralausar áritanir, áritanir með fyrirvara, neikvæð áritun og áritun án álits. Endurskoðandi setur fram viðeigandi áritun í samræmi við niðurstöðu þeirrar endurskoðunarvinnu sem hann hefur framkvæmt. En er væntingagap til staðar varðandi hlutverk endurskoðenda? Stutta svarið er já, það er til staðar og hefur verið í langan tíma. Mismunur á væntingum fer mikið eftir þekkingu fólks. Þegar samfélagið veit ekki með vissu í hverju vinna endurskoðenda er fólgin og hvað niðurstaða þeirrar vinnu þýðir geta væntingar verið ósanngjarnar eða óraunhæfar og myndað þar með væntingagap. Þegar að ársreikningum kemur er hlutverk stjórnanda í félagi að tryggja að þeir sé réttir og gerðir samkvæmt lögum um ársreikninga. Hlutverk endurskoðandans er á hinn bóginn að láta í ljós óháð álit á reikningsskilum. Endurskoðandi er skyldugur til að senda frá sér ráðningarbréf sem er öllum aðilum, stjórnenda félags og endurskoðenda, í hag til að koma í veg fyrir misskilning um endurskoðunina. Þar kemur meðal annars fram hvernig ábyrgðin skiptist á milli endurskoðenda og stjórnenda félags. Ef ekki er ljóst hvernig ábyrgðin skiptist á milli stjórnenda og endurskoðenda getur myndast væntingagap. Áhrif væntingagaps geta verið neikvæð fyrir endurskoðunarstéttina. Til dæmis getur traust almennings og notenda reikningsskila á endurskoðunarvinnu minnkað, tekjumöguleikum endurskoðenda getur hrakað og neikvætt orðspor getur myndast. Eftirfarandi dæmi eru mögulegar aðferðir til þess að draga úr væntingagapi í endurskoðun. Menntun getur dregið úr væntingagapi þar sem hún eykur þekkingu á vinnu og hlutverki endurskoðandans. Lengri og ítarlegri áritun endurskoðunarskýrslu er annað dæmi sem getur dregið úr væntingagapi. Að lokum má nefna aukna ábyrgð endurskoðenda við störf sín. Í ljós kom að væntingagap er til staðar í endurskoðun og margar mögulegar leiðir til að draga úr því en væntingar fólks eru mismunandi og því ekki hægt að útiloka þennan mismun með vissu.

Samþykkt: 
  • 10.1.2024
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/46089


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerd_NannaOskarsdottir.pdf374.58 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
LOKAVERKEFNI.pdf238.5 kBLokaðurYfirlýsingPDF