Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46123
Fiskeldi er sá liður matvælaframleiðslu sem hefur vaxið hvað hraðast í heiminum seinustu ár, og er greinin talin einkar mikilvæg til þess að viðhalda vexti í framboði sjávarafurða í heiminum. Laxeldi er meginuppistaða fiskeldis á Íslandi og hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni vegna umræðna varðandi umhverfisáhrif og dýravelferð innan greinarinnar.
Sjókvíaeldi er algengasta framleiðsluaðferð laxeldis þar sem um 99% allrar framleiðslu fer fram í sjókvíum. Með auknum tækniframförum á seinustu árum hefur landeldi á laxi verið talinn vænlegur valkostur við laxeldi, aðferðin er talin vera umhverfisvænni valkostur við framleiðslu á eldislax. Rannsóknir hafa sýnt fram á þörf á verðálagi (e. Price premium) á landeldisafurðir vegna hás rekstrarkostnaðar framleiðslunnar.
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna upplifanir og skoðanir neytenda á framleiðsluaðferðum laxeldis og skoða áhrif þess á val og vilja þeirra til þess að greiða hærra verð fyrir laxeldisafurðir úr landeldi.
Framkvæmd var megindleg rannsókn í formi vefkönnunar sem birt var á samfélagsmiðlinum Facebook, alls voru þátttakendur könnunarinnar 245 talsins, við úrvinnslu gagna var notast við einfalda lýsandi tölfræði.
Rannsóknarspurningar verkefnisins eru: „Hvaða áhrifaþættir hafa áhrif á kaupákvörðun á eldislax?“, „Hefur upplifun neytenda á dýravelferð og umhverfismálum áhrif á val þeirra á laxeldisafurðum?“, „Velja íslenskir neytendur lax sem alinn er í landeldi umfram lax sem alinn er í sjókví?“ og „Eru neytendur tilbúnir til þess að greiða hærra verð fyrir lax sem alinn er í landeldi?“.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að upplifun þátttakenda á laxeldi á Íslandi er neikvæð og velja þátttakendur lax sem alinn er í landeldi fram yfir lax sem alinn er sjókvíum. Þá leiddu niðurstöður einnig í ljós að þátttakendur voru reiðubúnir til þess að greiða verðálag fyrir lax sem alinn er í landeldi.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Lokautgafa.pdf | 1,92 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| Yfirlysing.pdf | 522,88 kB | Lokaður | Yfirlýsing |