Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46205
Bakgrunnur og markmið: Mígreni er taugasjúkdómur sem einkennist af slæmum höfuðverk en einnig tímabundnum hreyfi- og skyntruflunum. Algengi mígrenis er talið vera um 13,8% hjá konum og 6,9% hjá körlum. Mígreni kveikjur eru ákveðnir umhverfisþættir sem taldir eru geta aukið líkurnar á mígrenikasti. Erlendar rannsóknir sýna að sumir einstaklingar með mígreni tengja köst sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda en engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi. Markmið
rannsóknarinnar var að kanna hversu stórt hlutfall einstaklinga með mígreni tengja einkenni sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda auk þess að fá yfirlit yfir hvaða fæðutegundir auka helst líkur á mígrenikasti.
Aðferðir: Rannsóknin var þversniðs spurningalistakönnun. Rafrænn spurningalisti var lagður fyrir tvo hópa (af öllum kynjum, >18 ára), annars vegar einstaklinga sem eru meðlimir í íslenskum Facebook hópi sem nefnist ‚Mígreni‘ og hins vegar einstaklinga sem voru í meðferð við mígreni hjá taugalækni sérhæfðum í mígrenismeðferð. Í Facebook hópnum eru 2.000 hópmeðlimir. Þátttaka var opin í samtals 8 vikur á tímabilinu maí til ágúst árið 2023, 395 einstaklingar (19,6%) opnuðu hlekkinn á spurningalistann. Sjúklingum í meðferð við mígreni var boðið að taka þátt í gegnum taugalækninn á tímabilinu júní til september 2023. Áætlaður fjöldi sjúklinga sem kom á stofuna vegna mígrenis á rannsóknatímabilinu var um 300 sjúklingar. Sjúklingarnir samþykktu að höfundi yrði afhent netfang til að senda þeim kynningartexta og hlekk á spurningalistann. Samþykki fékkst frá 165 sjúklingum. Þar af opnuðu 108 sjúklingar spurningalistann, sem samsvarar 65% þeirra sem veittu samþykki og um það bil 36% sjúklinga sem komu til greina. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir teldu að ákveðin matvæli gætu valdið mígreniköstum og voru svarmöguleikarnir aldrei/sjaldan, stundum, oft eða alltaf. Einnig var spurt út í tegund mígrenis, lyfjanotkun, reykingar, fæðuofnæmi eða -óþol, kyn, aldur og bakgrunn.
Niðurstöður: Af þeim 466 þátttakendum sem svöruðu spurningunni um hvort þeir teldu að ákveðin matvæli gætu valdið mígreniköstum, sögðu 354 einstaklingar (76%) að neysla ákveðinna tegunda af mat yki líkur á mígrenikasti. Hlutfallið var hærra í Facebook hópnum en í taugalæknahópnum (78% á móti 66%, p=0,007). Þátttakendur með mígreni án áru voru ólíklegri (62%) til að segja að matur væri kveikja en hinir tveir hóparnir, mígreni með áru (78%) og blandað mígreni (83%) (p<0,001). Rauðvín og að sleppa máltíðum eða svengd voru algengustu kveikjurnar meðal þátttakenda, þar sem >50% þátttakenda sögðu kveikjurnar oft eða alltaf valda mígrenikasti. Aðrar algengar kveikjur voru hvítvín, lakkrís og reykt kjöt en það voru 20-50% þátttakenda sem nefndu þær sem kveikjur.
Ályktun: Stór hluti meðlima í Facebook hópnum „Mígreni“, sem og sjúklingar sem eru í eftirfylgd taugalæknis vegna mígrenis, töldu að matur gæti aukið líkur á mígreniskasti. Helstu fæðutengdu kveikjurnar sem þátttakendur í þessari rannsókn greindu frá voru svipaðar þeim sem greint hefur verið frá í erlendum rannsóknum. Hins vegar hafa fyrri rannsóknir ekki áður sýnt lakkrís sem algenga fæðukveikju fyrir mígreni og reykt kjöt var algengari kveikja en sést hefur í erlendum rannsóknum. Þessi rannsókn veitir nýja þekkingu á fæðukveikjum mígrenis á Íslandi og niðurstöðurnar gætu nýst við meðferð mígrenisjúklinga.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Food-as-a-trigger-for-migraine-Hadda-Margrét-Haraldsdóttir.pdf | 1.65 MB | Lokaður til...12.01.2029 | Heildartexti | ||
yfirlýsing.pdf | 164.15 kB | Lokaður | Yfirlýsing |