Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46218
Vinnuumhverfi félagsráðgjafa getur verið streituvaldandi og geta slíkar aðstæður orðið til þess að einstaklingar upplifi kulnun í starfi. Til að skoða starf félagsráðgjafa nánar hefur höfundur dregið saman rannsóknir, fræðileg skrif um viðfangsefni kulnunar, skoðað hvert verkefni stjórnenda er, til hvers er ætlast í vinnuumhverfinu og hvernig starfsmenn jafnt sem stjórnendur þurfa að taka virkan þátt í umönnun starfsmanna til að stuðla að góðri líðan í starfi, jafnt sem utan vinnu. Kulnun er fyrirbæri sem margir hafa heyrt um en í þessari fræðilegu samantekt verður farið nánar út í hver rótin að kulnun kunni að vera. Margir tengja kulnun við einstaklinga sem hafa unnið of mikið eða verið undir miklu álagi í starfi í langan tíma. Málshátturinn „dropinn holar harðan stein“ á sérstaklega við þegar viðfangsefni kulnunar er skoðað. Margir þættir í daglegu lífi okkar og starfi geta haft áhrif á kulnun og verður hér gerð tilraun til að skoða hluta af þeim áhrifaþáttum.
Niðurstöður rannsókna sem teknar hafa verið fyrir hafa sýnt fram á að stuðningur yfirmanna, og gott samband yfirmanna og starfsmanna, geta spornað gegn streitu í vinnu. Handleiðsla er einnig mjög mikilvæg en hún gefur starfsfólki tækifæri til að tjá sig um vinnustaðinn og líðan sína í vinnu. Með handleiðslu getur vellíðan starfsmanns aukist þegar starfsmaðurinn finnur fyrir því að hann tilheyri á vinnustaðnum; hann þróast í starfi og ræktar með sér sjálfstæði. Með því að gefa starfsfólki innsýn í stjórnunarhlutverkið, og að báðir aðilar skilji ábyrgð sína jafnt og annarra starfsmanna, myndast brú á milli stigvelda inni á vinnustaðnum. Það getur létt á starfsfólki auk þess sem fólk finnur fyrir tilgangi í því að vilja vinna sig upp í fyrirtækinu eða þeirri stofnun sem það vinnur hjá.
Þessi fræðilega samantekt getur verið áhugaverð og nytsamleg fyrir yfirmenn jafnt sem starfsmenn, meðal annars til að hanna og nota viðeigandi inngrip og til að reyna að sporna gegn kulnun í starfi. Einnig geta niðurstöðurnar hjálpað til við að útskýra þætti í starfi, aukið skilning á kulnun og hvar ábyrgðin liggur þegar kemur að kulnun í starfi. Að lokum getur rannsóknin nýst til að skilja hver staða yfirmanns sé og hvernig ábyrgðin færist á milli starfsmanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Victor-Alexander-Guðjónsson-Kulnun-félagsráðgjafa-og-hvernig-stjórnendur-geta-spornað-gegn-kulnun.pdf | 732.34 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing-victoralexander.pdf | 156.32 kB | Opinn | Skoða/Opna | ||
Skemman_yfirlysing-victoralexander.pdf | 156.32 kB | Lokaður | Yfirlýsing |