is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4625

Titill: 
 • Áhrif endurhæfingar á mæði hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu
Titill: 
 • Effect of pulmonary rehabilitation on shortness of breath in patients with chronic obstructive pulmonary disease
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Óeðlileg mæði hefur neikvæð áhrif á lífsgæði sjúklinga með langvinna lungnateppu (LLT). Markmið rannsóknarinnar var að meta árangur þeirrar sex vikna alhliða endurhæfingarmeðferðar sem veitt er á Reykjalundi fyrir sjúklinga með LLT, í að draga úr upplifun þeirra á mæði til skemmri og lengri tíma. Athugað var hvort þættir eins og aldur, kyn, holdafar, andleg líðan (kvíði og/eða þunglyndi) göngugeta og alvarleiki lungnateppunnar, hefði áhrif á hvernig sjúklingar upplifðu mæðina. Kannað var hvort endurhæfingin leiddi af sér frekari þátttöku í líkamsrækt og þá hvort einhverjir af ofangreindum þáttum væru ólíkir við innskrift hjá þeim sem stunduðu líkamsrækt ári eftir að endurhæfingunni lauk og þeim sem gerðu það ekki. Einnig var kannað hvort upplifun á mæði væri ólík, á einhverjum tímapunktum rannsóknarinnar, hjá þeim sem stunduðu líkamsrækt eða ekki einu ári eftir að endurhæfingunni lauk. Einnig hvort breyting á mæði, frá útskrift úr endurhæfingu og þar til einu ári síðar, væri ólík hjá þeim sem stunduðu líkamsrækt eða ekki. Þar var sérstaklega skoðað hvort sjúklingar með andlega vanlíðan (kvíða og/eða þunglyndi) við innskrift, stunduðu síður líkamsrækt en aðrir í kjölfar endurhæfingarinnar. Skoðað var hvort andleg líðan þátttakenda hefði áhrif á göngugetu við innskrift og bata á líkamlegu þreki yfir endurhæfingartímann.
  Þátttakendur voru 140 sjúklingar með LLT sem voru á biðlista eftir lungnaendurhæfingu á Reykjalundi. Þátttakendur svöruðu SOBQ listanum (Shortness Of Breath Questionnaire), fyrir innskrift, við innskrift, við útskrift og einu ári eftir útskrift en listinn metur mæði við athafnir daglegs lífs. Við innskrift, útskrift og einu ári síðar svöruðu þátttakendur einnig HAD listanum (Hospital, Anxiety and Depression scale), sem metur andlega líðan (kvíða og þunglyndi). Allir þátttakendur voru öndunarmældir við innskrift og fóru í sex mínútna göngupróf við innskrift og útskrift. Spurt var um þátttöku í líkamsrækt við innskrift og ári eftir útskrift.
  Af þátttakendum við innskrift voru konur fleiri (63%, N = 88) en karlar (37%, N= 52), meðalaldur var 67,38,8 ár, FEV1 62,625,1% af áætluðu, BMI 29,16,2 kg/m2, gengin vegalengd á sex mínútna gönguprófi var 441 ± 106 metrar (75,3 ±17,9% af áætluðu), mæði var 54,8 ± 20,4 stig og 38% þátttakenda höfðu merki um andlega vanlíðan. Niðurstöður við útskrift sýndu að sex vikna alhliða lungnaendurhæfing á Reykjalundi dró úr upplifun á mæði (-7.9 ± 13.6) og bati var enn til staðar einu ári síðar (-4.1 ± 15.9). Þeir sem sýndu merki um andlega vanlíðan (kvíða og/eða þunglyndi) upplifðu meiri mæði (65.3 ± 19.3) en þeir sem höfðu eðlilega andlega líðan (48.5 ± 18.4). Endurhæfingin leiddi til þess að þeim sem fundu fyrir andlegri vanlíðan fækkaði (28%) en þeim hafði fjölgað aftur einu ári síðar (45%). Ekki reyndist fylgni eða munur á upplifaðri mæði eftir aldri og ekki heldur eftir holdafari. Karlar upplifðu jafn mikla mæði (52.5 ± 20.1) og konur (56.2 ± 20.5), en umtalsverður munur var á öðrum breytum á milli kynjanna. Sjúklingar sem höfðu meiri lungnateppu upplifðu meiri mæði (59.5 ± 20.9) en þeir sem höfðu minni teppu (51.3 ± 19.1) og sýndi aðhvarfsgreining að því meiri sem teppan var (lægra FEV1% af áætluðu), því meiri mæði upplifði sjúklingurinn við athafnir daglegs lífs (r2 = 0.077).
  Sjúklingar með merki um andlega vanlíðan (kvíða og/eða þunglyndi) reyndust hafa minni göngugetu (70.4 ± 17.5% af áætluðu) en þeir sem ekki höfðu þau einkenni (78.1 ± 17.5% af áætluðu). Ekki var munur á bata á gönguprófi hjá þessum sjúklingum við útskrift. Aðhvarfsgreining sýndi að því hærra sem kvíðastig var á HAD lista, því meiri var upplifun á mæði (r2 = 0.214) og að því meiri mæði sem sjúklingur upplifði við athafnir daglegs lífs, því styttra gekk hann á gönguprófi (r2 = 0.159). Niðurstöður fjölbreytuaðhvarfsgreiningar sýndu að göngugeta (% af áætluðu) og kvíðastig á HAD lista spáðu best fyrir um upplifun á mæði, eða um 35 %. Aðrar breytur sem skoðaðar voru (aldur, kyn, BMI, þunglyndisstig, FEV1%) gáfu ekki marktækar skýringar á upplifun á mæði til viðbótar við þessar. Aðhvarfsgreining sýndi einnig að því meiri sem teppan var (lægra FEV1%), því minni var göngugetan (r2 = 0.25). Fleiri stunduðu líkamsrækt ári eftir útskrift (64%) en höfðu gert það fyrir endurhæfinguna (38%). Andleg vanlíðan (þunglyndi og/eða kvíði) við innskrift virtist ekki hafa áhrif á þátttöku í líkamsrækt eftir útskrift.
  Ályktað er að sú sex vikna endurhæfing sem veitt er á Reykjalundi fyrir sjúklinga með LLT sé árangursrík meðferð, til að draga úr upplifun þeirra á mæði við athafnir daglegs lífs og bæta göngugetu. Upplifun á mæði breyttist ekki með aldri eða holdafari og var eins hjá körlum og konum. Þeir sjúklingar sem höfðu meiri teppu upplifðu meiri mæði en þeir sem höfðu minni teppu. Þeir sem höfðu merki um andlega vanlíðan (kvíða og/eða þunglyndi) upplifðu meiri mæði og höfðu minni göngugetu við innskrift í endurhæfingu en þeir sem höfðu eðlilega andlega líðan, en náðu þrátt fyrir það sama bata á göngugetu. Af þeim þáttum sem skoðaðir voru spáðu kvíðastig og göngugeta best fyrir um upplifun á mæði. Þeir sem stunduðu reglubundna líkamsrækt í kjölfar endurhæfingar upplifðu minni mæði einu ári síðar en þeir sem ekki stunduðu líkamsrækt. Endurhæfingarmeðferðin sem veitt var á Reykjalundi fækkaði þeim sem höfðu merki um andlega vanlíðan og fjölgaði þeim sem voru virkir í reglubundinni líkamsrækt einu ári síðar.

Styrktaraðili: 
 • Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, HNLFÍ,
  Lífeðlisfræðistofnun HÍ, Minningarsjóður Hans Adolfs Hjartarsonar, Reykjalundur og Vísindasjóður Reykjalundar
Athugasemdir: 
 • Aðrir meðlimir í meistaranámsnefnd:
  Stefán B. Sigurðsson og
  Gísli Einarsson
Samþykkt: 
 • 7.4.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/4625


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaverkefni Elfa D.Ingolfsdottir.pdf12.11 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna