Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4627
Andmælareglan er ein af grundvallarreglum íslensks stjórnsýsluréttar og er reglan nú lögfest í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (framvegis skammstöfuð sem ssl.). Róbert R. Spanó segir að inntak reglunnar sé í stuttu máli það „að einstaklingur eða eftir atvikum lögaðili, sem á í samskiptum við stjórnvald út af tilteknu afmörkuðu máli, á að jafnaði rétt til þess að fá að tjá sig um efni málsins áður en stjórnvaldið tekur ákvörðun sem áhrif hefur á réttindi hans eða skyldur.“
Eins og heiti ritgerðarinnar ber með sér verður leitast við að sýna hvernig ber að beita andmælareglunni við uppsögn ríkisstarfsmanna og hvaða áhrif sérreglan í 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna (framvegis skammstöfuð sem stml.) hefur á málsmeðferðina.
Ritgerðin hefst á almennri umfjöllun um andmælaréttinn og hinni ólögfestu reglu um andmælarétt sem var viðurkennd í framkvæmd bæði af dómstólum og umboðsmanni Alþingis fyrir gildistöku stjórnsýslulaganna. Í 3. kafla verður fjallað almennt um stjórnsýslulögin, um gildissvið þeirra og hvernig ber að beita þeim í framkvæmd og því næst sérstök umfjöllun um 13. gr. laganna. Starfsmannalögin eru viðfangsefni 4. kafla og verður lögð sérstök áhersla á þær reglur sem kveða á um andmælarétt og varða veitingu áminninga og uppsögn ríkisstarfsmanna, en þær reglur er að finna í 21. gr. og 44. gr. stml. Í 5. kafla verður leitast við að sýna fram á inntak andmælaréttar ríkisstarfsmanna við uppsögn þeirra með því að skoða helstu dóma Hæstaréttar er fjalla um andmælarétt við uppsögn ríkisstarfsmanna og álit umboðsmanns Alþingis. Sú ákvörðun stjórnvalds að segja upp starfsmanni telst vera stjórnvaldsákvörðun samkvæmt stjórnsýslulögum og verður meðal annars farið yfir samspil ákvæða stjórnsýslulaga og starfsmannalaga er kveða á um skyldu stjórnvalds þess efnis að veita skuli aðila kost á að koma fram andmælum sínum, hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt hverju sinni og hver beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrðin séu í raun öll fyrir hendi.
Að lokum er í 6. kafla fjallað um afleiðingarnar í kjölfar þess að ekki sé gætt að andmælarétti ríkisstarfsmanna. Farið verður lauslega yfir þær reglur sem gilda um ógildingu stjórnvaldsákvarðana og hvernig dómaframkvæmd er háttað.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Andmælaréttur og beiting hans við uppsögn ríkisstarfsmanna.pdf | 250.01 kB | Lokaður | Heildartexti |